Fara í efni
Fréttir

EasyJet enn að skoða Akureyri – ekki flogið í vetur

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur í nokkur ár skoðað möguleika á beinu áætlunarflugi á milli London og Akureyrar. Ekki er langt síðan fulltrúar félagsins komu til að kynna sér aðstæður á Akureyrarflugvelli og hávær orðrómur hefur verið um að easyJet hæfi flug á þessari leið nú í haust. Akureyri.net veit hins vegar fyrir víst að af því verður ekki að sinni.

Stjórnendur easyJet eru spenntir fyrir Akureyri sem áfangastað og hugmyndin er að fljúga á milli höfuðstaðar Norðurlands og London yfir vetrartímann, skv. heimildum Akureyri.net. Sömu heimildir herma að það sé í ljósi ástandsins í heiminum; olíuverðs, og yfirvofandi kreppu í Bretlandi, sem stjórn félagsins hafi ákveðið að bíða enn með að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Hins vegar verði verkefnið skoðað áfram og ekki sé loku fyrir það skotið að easyJet hefji flug á umræddri leið í framtíðinni.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu easyJet hefur flugfélagið yfir 3000 flugvélum að ráða á næstum 1000 flugleiðum til meira en 150 flugvalla í 35 löndum.