Dýrasta einbýlishús í bænum: 156,6 milljónir
Einbýlishús við Hrafnabjörg á Akureyri var nýverið sett á sölu og er ásett verð 156,5 milljónir. Fasteignasali á Akureyri segir að verðmiðar á borð við þennan séu það sem koma skal.
„Fermetraverðið á þessu húsi er 550 þúsund og það er ekki óalgengt fermetraverð á Akureyri,“ segir Sigurður Sveinn Sigurðsson fasteignasali hjá fasteignasölunni Hvammi sem er með húsið í einkasölu. Sigurður segir að þó vissulega séu einbýlishús á Akureyri ekki oft með svona háan verðmiða þá muni þeir verða algengari í framtíðinni. „Það byggir enginn hús í dag undir 600 þúsund fermetrinn þannig að þegar þegar nýleg einbýlishús t.d. í Hagahverfi koma á sölu má búast við verðmiðum sem þessum og hærri.“
Virðulegt hús á eftirsóttum stað
Fasteignaverð á Akureyri hefur farið hækkandi á undanförnum misserum en nýlega sagði Akureyri.net frá því að 100 fermetra íbúð í miðbæ Akureyrar var auglýst á tæpar 100 milljónir. Þar var því hver fermetri verðlagður á eina milljón króna. Smellið hér til að sjá þá frétt.
„Miðað við það er þetta hús við Hrafnabjörg alls ekki dýrt,“ segir Sigurður og bætir við að það þurfi alltaf að horfa á fermetra verðið þegar verið sé að tala um fasteignaverð; „En það er ekkert óeðlilegt að svona stórt og vel við haldið hús kosti sitt. Þetta er fallegt og virðulegt hús sem stendur á eftirsóttum stað.“ Hann segir staðsetningu hússins vera einstaka en úr húsinu er mjög flott útsýni yfir fjörðinn. Bakgarðurinn er ekki síður skemmtilegur en hann snýr upp í skógi vaxna brekku sem gefur skemmtilega stemmingu þegar setið er í heita pottinum á pallinum. Þá eru í húsinu sex svefnherbergi, nokkuð sem Sigurður segir að sé sjaldgæft að finna, þar sem flest hús sem byggð eru í dag eru ekki með fleiri svefnherbergjum en þremur. „Það er glæsileiki yfir þessu húsi, svona „villu“ stemning,“ segir Sigurður. Hægt er að fá nánari upplýsingar um húsið á heimasíðu fasteignasölunnar.
Verðmiðinn á Hrafnabjörgum er hár en þó ekki ef horft er á fermetraverðið. Húsið er afar rúmgott og með „villu“ stemmingu eins og fasteignasali á Hvammi orðar það.