Dýrara að leigja út í skammtímaleigu
Samkvæmt leigusíðunni Airbnb eru nú á og við Akureyri um 300 heimili og sumarhús skráð í skammtímaleigu. Húseigendur sem hafa hug á að leigja íbúðarhúsnæði út í skammtímaleigu þurfa að sækja um heimagistingarleyfi en leyfið hefur hækkað um 8,2 % frá því í fyrra.
Allir sem leigja íbúðarhúsnæði sitt út á Airbnb eða sambærilegum leigusíðum í skammtímaleigu eru skráningarskyldir og þurfa að sækja um svokallað heimagistingarleyfi. Leyfið gefur húsnæðiseigendum rétt til þess að leigja Íbúðarhúsæði út í 90 daga á ári eða fyrir allt að tvær milljónir. Endurnýja þarf leyfið á hverju ári og hefur verið opnað fyrir skráningar fyrir árið í ár á heimagisting.is. Leyfið hefur undanfarin ár kostað 8.500 krónur en hækkaði nýlega upp í 9.200 krónur.
Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafa gestgjafar töluvert spurt að því að hvort tveggja milljóna markið eigi ekkert að hækka í takt við hækkanir á öllu öðru í þjóðfélaginu. Engar slíkar breytingar liggja hins vegar fyrir enda þurfi lagabreytingu til að svo geti orðið.