Fara í efni
Fréttir

Dvalarheimili: reglur um heimsóknir rýmkaðar

Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð við Vestursíðu í Glerárhverfi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Reglur um heimsóknir til íbúa Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA), Hlíðar og Lögmannshlíðar, hafa verið rýmkaðar. Breytingarnar gilda til 22. febrúar.

Helstu breytingarnar eru þessar:

  • Hver og einn íbúi má nú fá gesti tvisvar á dag.
  • Gestir á tímabilinu, til 22. febrúar, geta verið 2 til 3. Það er liður í því að takmarka heildarfjölda þeirra sem koma inn á heimilin. Tilkynna skal viðkomandi heimili hverjir eru á gestalistanum.
  • Gestir skulu fara stystu leið inn og út, og gæta sérstaklega að sóttvörnum. Þetta á líka við um þá sem mögulega hafa verið bólusettir sjálfir eða veikst. Öllum gestum ber að virða tveggja metra regluna eins og kostur er.
  • Íbúum er nú heimilt að fara í bíltúr, göngutúr, heimsóknir og fjölskylduboð, en þurfa að gæta sérstaklega að sóttvörnum þegar þeir koma til baka inn á heimilið, þar sem hver sem er getur borið með sér smit þó að viðkomandi hafi verið bólusettur.
  • Við heimsóknir eða matarboð íbúa utan ÖA þarf að gæta að sóttvörnum samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis.
  • Gæludýr mega koma með gestum í heimsókn til íbúa hjúkrunarheimilanna.
  • Starfsfólk ÖA skal áfram nota maska, gæta ítrustu sóttvarna og ekki fara á milli sóttvarnarhólfa nema brýna nauðsyn beri til. Starfsfólk viðhaldi sóttvarnarreglum í allri umgengni og samskiptum við gesti.