„Drottningarbraut skal hún heita“
Skömmu áður en Margrét Þórhildur II Danadrottning kom í opinbera heimsókn til Akureyrar í júlí árið 1973 var lokið við gerð nýs vegar inn á flugvöll, á uppfyllingu í Pollinum.
Fyrir þennan tíma lá leiðin á flugvöllinn um Hafnarstræti framhjá Samkomuhúsinu, áfram inn Fjöruna eftir Aðalstræti, inn á Krókeyri og þaðan inn á flugvöll.
Einhverjum datt í hug að kalla nýja veginn inn á flugvöll Drottningarbraut, vegna komu Margrétar Þórhildar, og nafnið festist fljótt við hann. Það var hins vegar ekki fyrr en tæpum áratug síðar að það nafn var formlega tekið upp. Gaman er að rifja það upp nú í tilefni þess að Margrét Þórhildur steig til hliðar í dag og Friðrik sonur hennar tók við völdum sem Friðrik X konungur.
Eins og Akureyri.net rifjaði var upp fyrr í dag kom drottningin og fylgdarlið hennar akandi austan úr Þingeyjarsýslu um gamla, góða Vaðlaheiðarveginn, þaðan lá leiðin yfir gömlu brýrnar yfir Eyjafjarðará sunnan flugvallarins enda var Leiruvegurinn ekki lagður fyrr en mörgum árum síðar.
Fyrirsögn fréttar í DV snemma árs 1982 þegar bæjarstjórn ákvað formlega að Drottningarbraut skyldi nefna Drottningarbraut.
Leiruvegurinn var tekinn í notkun árið 1986 og leysti af hólmi þrjár einbreiðar brýr frá 1923 yfir Hólmana sunnan við flugvöllinn. Leiruvegur liggur um leirur Eyjafjarðarár úr Vaðlaheiði yfir til Akureyrar.
Svo virðist sem Gísli Sigurgeirsson, þá blaðamaður DV á Akureyri, hafi einn fjölmiðlamanna sýnt formlegri nafngift vegarins áhuga. Hann fjallaði í tvígang um það þegar bæjarstjórn Akureyrar ákvað snemma árs 1982 að Drottningarbraut skyldi heita Drottningarbraut ...
Gísli sagði í frétt seint í janúar: „Drottningarbraut“ skal braut sú á Akureyri heita sem liggur allt frá gatnamótum Kaupvangsstrætis að syðri bæjarmörkum, samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar. Raunar eru liðin hátt i 10 ár síðan brautin fékk þetta virðulega nafn á vörum Akureyringa, þegar Margrét Danadrottning ók brautina, eftir að bæjarstarfsmenn höfðu lagt nótt við dag til að ljúka gerð hennar fyrir heimsókn drottningar.
Fjarðarbraut? Vaðlabraut? Kjarnabraut?
Gísli upplýsti að hugmyndir um önnur nöfn hafi komið fram í bæjarstjórninni. Hann skrifaði í DV:
Meirihluti byggingarnefndar lagði til að brautin yrði nefnd Fjarðarbraut. Talaði Sigurður Jóhannesson fyrir þeirri hugmynd. Taldi hann varhugavert að hygla Danadrottningu frekar en öðrum þjóðhöfðingjum – Hvað má þá Ólafur Noregskonungur segja eða þá Vigdís Finnbogadóttir, forsetinn okkar, sagði Sigurður.
Fleiri hugmyndir komu fram í bæjarstjórn. Helgi M.Bergs [bæjarstjóri] stakk upp á Vaðlabraut og Tryggvi Gíslason vildi nefna brautina Kjarnabraut, til heiðurs því kjarnafólki sem þar færi um. Drottningarbraut var það nafn sem 9 bæjarfulltrúar vildu.
Leiðin frá Kaupvangsstræti og suður að flugvelli var sem sagt kölluð Drottningarbraut á sínum tíma, en nú virðist það góða nafn aðeins notað yfir hluta leiðarinnar. Eða hvað? Það er málum blandið.
Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var nefnt að Drottningarbraut virtist nú kaflinn frá Kaupvangsstræti að Leiruvegi, og þar tæki við Eyjafjarðarbraut vestri. Þannig er merkingin á vefnum ja.is. Á korti sem fannst á vef Akureyrarbæjar virðist Drottningarbraut hins vegar ná inn að Naustavegi, götunni sem liggur framhjá Skautahöllinni og upp í Naustahverfi. Þriðju útgáfuna má svo finna á kortasjá á vef bæjarins; þar nær Drottningarbraut alveg inn að flugvelli!
Þar sem Drottningarbraut endar, hvar svo sem það er, tekur við Eyjafjarðarbraut vestri og nær langt fram í fjörð.