Davíð sigraði á móti til minningar um Gylfa
Alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson bar sigur úr býtum á minningarmóti í skák um Gylfa Þórhallsson, sem fram fór um hvítasunnuhelgina í menningarhúsinu Hofi.
Gylfa, sem var skákmeistari og forystumaður í norðlensku skáklífi um áratuga skeið, féll frá þann 29. mars á síðasta ári.
Mótið hófst föstudaginn 21. maí og lauk á annan dag hvítasunnu. Tefldar voru tólf umferðir og meðal þátttakenda voru tveir stórmeistarar og þrír alþjóðlegir meistarar, keppendur alls 58.
Davíð Kjartansson hlaut 10 vinninga, stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson varð í öðru sæti með 9 vinninga og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson þriðji með 8 og hálfan vinning.
Þrír Akureyringar deildu svo fjórða sætinu með Jóhanni Hjartarsyni stórmeistara, þeir Jón Kristinn Þorgeirsson, Símon Þórhallsson og Rúnar Sigurpálsson. Fengu þeir allir 8 vinninga.
Áskell Örn Kárason vann sigur í öldungaflokki (+65) og Elsa María Kristínardóttir í kvennaflokki. Í flokki skákmanna með færri en 2000 atskákstig varð Mikael Jóhann Karlsson efstur og í flokki skákmanna með færri en 1600 sigraði Benedikt Þórisson.
Mótið var í alla staði vel heppnað. Teflt var í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi, en aðstæður þar eru e.t.v. þær bestu sem bjóðast fyrir skákmót af þessu tagi.
Margir af keppendum og aðstandendum mótsins lýstu yfir áhuga á því að efna til nýs móts að ári.
Sigurvegari mótsins, Davíð Kjartansson.
Að tafli á minningarmótinu; Rúnar Sigurpálsson Akureyrarmeistari og að baki honum Jóhann Hjartarson stórmeistari.
Þrír æfingafélagar í Skákfélagi Akureyrar með verðlaun sín, frá vinstri: Mikael Jóhann Karlsson, Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson.