Fara í efni
Fréttir

Dalvíkingur framleiðir kryddblöndur á Spáni

Matreiðslumaðurinn Helgi B. Helgason, sem starfaði lengi við fagið á Íslandi, bæði á sjó og landi, hefur hafið framleiðslu á kryddblöndum á Spáni. Framundan er mikið starf við markaðssetningu á vörunum en draumurinn er að koma kryddunum í sölu á Íslandi og víðar um heiminn.

Bragðlaus graflax kom honum á bragðið

Helgi flutti til Spánar með fjölskyldu sína árið 1999. Á Spáni starfaði hann fyrir Subway International til ársins 2019. Undanfarin fimm ár hefur hann verið að þróa sínar eigin kryddblöndur og eru þær nýkomnar á markað. „Þessi kryddhugmynd kviknaði vorið 2019 í kjölfar tilkynningar um endurskipulagningu hjá Subway en þá vissi ég að ég yrði að finna mér eitthvað annað að gera. Ég var úti að borða á 59 ára afmælisdegi mínum á belgískum veitingastað og hafði pantað mér graflax í forrétt sem var alveg bragðlaus,“ segir Helgi sem áttaði sig þá á því að hann væri með söluvöru í höndunum. Kryddblanda frá honum hefði nefnilega léttilega getað bjargað graflaxinum.

Helgi var orðinn leiður á lægðunum á Íslandi og flutti til Spánar um aldamótin. Hann á ættir að rekja til Dalvíkur en segist núna eiginlega vera orðinn meiri Spánverji en Íslendingur.

Tíu ár kokkur á skipum Samherja

Helgi, sem er fæddur og uppalinn á Dalvík, hefur verið að nota sínar eigin kryddblöndur í 40 ár. Það er þó fyrst núna sem hann er að koma þeim á markað og undir nafninu „PREMIUM Seasoning Blends by Artos“. Einkenni varanna er hollusta og gæði en kryddblöndurnar sjá til þess að sem best bragðgæði náist út úr hvaða hráefni sem er í höndum venjulegra heimiliskokka.

Helgi hóf starfsferill sinn sem matreiðslmaður á Múlakaffi þar sem hann var í læri hjá Stefáni Ólafssyni. Eftir útskrift árið 1980 lá leiðin á veitingastaðinn Cockpit-Inn í Lúxemborg sem Valgeir Sigurðsson rak en þar réð matreiðslumeistarinn Sigurvin Gunnarsson ríkjum í eldhúsinu. „Þetta var mjög skemmtilegur og vinsæll veitingastaður með flugvélatengdum innréttingum. Það voru alls konar myndir úr íslenskri flugsögu á veggjunum og líka skipamyndir. Þarna byrjaði ég að nota mínar eigin kryddblöndur og þær hafa síðan þróast með mér í gegnum tíðina,“ segir Helgi. Eftir rúmlega ársdvöl í Lúxemborg flutti Helgi aftur heim, stofnaði fjölskyldu og opnaði veitingastaðinn Crown Chicken á Akureyri ásamt fleirum. Þar var hann í fimm ár en réð sig svo til Samherja. „Ég ætlaði bara að vera hjá Samherja í eitt ár til að ná mér í pening en þetta eina ár varð að tíu,“ segir Helgi sem var fastráðinn á togaranum Hjalteyri en fór einnig nokkra túra á Akureyrinni, Þorsteinn og var svo fastráðinn á Víði þegar Hjalteyrin var seld til Skotlands. Um aldamótin flutti svo fjölskyldan alfarið til Spánar en Helgi er í dag fráskilinn og búsettur skammt frá Benidorm ásamt yngsta syninum Sindra Má. Dóttir hans, Karen Björk, býr í Ungverjalandi og elsti sonurinn Eiríkur Ingi er á Íslandi. 

Kryddblöndur Helga eru án MSG og ofnæmisvaldandi efna. Einkenni varanna er hollusta og gæði en kryddblöndurnar sjá til þess  að sem best bragðgæði náist út úr hvaða hráefni sem er í höndum venjulegra heimiliskokka.

Vill einbeita sér að kryddunum

Nú er það kryddframleiðslan sem á hug Helga allan, þó hans aðalstarf í dag tengist reyndar þýðingum, en draumur hans er sá að geta lagt þýðingarnar alfarið á hilluna og einbeitt sér eingöngu að kryddunum. Helgi er í samstarfi við fjölskyldurekna kryddverksmiðju í Murcia varðandi blöndun og pökkun. Sex kryddblöndur eru nú þegar tilbúnar á markað en það hefur ekki verið auðvelt að koma þeim í sölu. Fyrir það fyrsta er alls kyns tímafrek pappírsvinna í kringum kryddin þar sem um matvöru er að ræða. Þá eru kryddblöndur almennt ekki algeng söluvara í verslunum á Spáni og því hefur verið erfitt að sannfæra verslunarstjóra á hans svæði um að taka þær í sölu. Þó byrjunin hafi verið brött segist Helgi bara vera rétt að byrja. Mótlætið og byrjunarörðugleikar hafi bara gert hann þrjóskari enda er hann í nautsmerkinu og hefur mikla trú á vörunni.

Hollar og bragðgóðar blöndur 

„Kryddblöndur eru mjög handhægar í eldhúsinu, þú þarft bara að setja þær á hráefnið og það er engin óvissa með útkomuna. Ég nota einungis gæðahráefni í vörurnar, spænskt sjávarsalt er í öllum blöndunum og spænsk paprika, þ.e.a.s. í þeim blöndum sem paprika er notuð á annað borð. Þá er ekkert MSG í kryddunum og engar ofnæmisvaldandi vörur. Ég vil að kryddin séu bragðgóð en líka holl,“ segir Helgi spurður út í sérstöðu kryddulínunnar. Þá bætir hann við að kryddin séu passlega gróf þannig að þau smjúgi vel inn í hráefnið og nái að gefa matnum bragð. Í þróunarferlinu segist hann hafa prófað allskonar blöndur frá öðrum framleiðendum en að hans mati hafa fæstar þeirra verið rétt blandaðar eða verið of grófmalaðar. „Mér finnst t.d. sítróna aldrei ná í gegn í svona blöndum en hún gerir það hjá mér,“ segir Helgi og vísar þar í Salt, Pepper & Garlic blönduna með sítrónukeimnum. „Ég hef verið að prófa blöndurnar á vinum og vandamönnum og sent prufur víða. Kryddblöndurnar hafa alls staðar fengið mjög góða dóma. Þá hef ég selt kryddin til Íslendinga hér úti og tekið þátt í mörkuðum á vegum Íslendingafélagsins í Orihuela. Íslendingar hér á Spáni þekkja þessar vörur því vel,“ segir Helgi.

Kryddblöndur eru mjög handhægar í eldhúsinu, þú þarft bara að setja þær á hráefnið og það er engin óvissa með útkomuna.

Bragðlaus lax á veitingastað kveikti þá hugmynd hjá Helga að hann ætti að fara í framleiðslu á sínum eigin kryddblöndum. Ein af blöndum hans er einmitt fyrir graflax. 

Orðinn meiri Spánverji en Íslendingur

Helgi er með mörg járn í eldinum og ýmsar hugmyndir eru í gangi varðandi framhaldið. Á tímabili var hann t.d. í viðræðum við Kjarnafæði, rétt fyrir samrunann við Norðlenska, um hönnun á framandi kryddblöndum fyrir lambakjöt. Þessa dagana er hann að undirbúa sölu á vörunum á Amazon en eins er hægt að kaupa kryddin í gegnum heimasíðuna byartos.com. Að sjálfsögðu segist Helgi gjarnan vilja koma vörunum inn í verslanir á Íslandi en áhugasamir Íslendingar geta fljótlega keypt kryddblöndurnar í vefversluninni á heimasíðunni og mun Gorilla warehouse sjá um að íslenskar pantanir skili sér hratt og örugglega til viðskiptavina. Hugur Helga er þó alls ekki sérlega mikið á Íslandi, því eins og áður segir þá hefur hann verið búsettur á Spáni frá aldamótum og sé því eiginlega orðinn meiri Spánverji en Íslendingur. Hann sér því ekki fyrir sér að hann flytji aftur heim til Íslands, Spánn sé hans krydd í tilverunni. „Það er þó ekki nema bara til að enda á elliheimili á Íslandi,“ segir hann og hlær.

Helgi í eldhúsinu heima á Spáni þar sem tilraunastarfsemin fer gjarnan fram.