Fara í efni
Fréttir

Covid: Smit í flestum grunnskólunum

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Að minnsta kosti 14 Covid smit greindust á Akureyri í dag, í flestum tilfellum var um að ræða börn á grunnskólaaldri. Unnið er að rakningu og eru foreldrar hvattir til þess að halda samskiptum barna í lágmarki og á það einnig við um íþróttaæfingar.

Eftirfarandi birsti á Facebook síðu lögreglunnar fyrir stundu:

„Áríðandi tilkynning frá aðgerðarstjórn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fjölgunar Covid smita á Akureyri.

„Nú í vikunni hafa verið að greinast ný smit á Akureyri og hafa þau tengst inn í grunnskóla bæjarins. Í dag var fjöldi sýna tekin og í ljós hefur komið að staðfest eru a.m.k. 14 ný smit, og þau flest hjá aðilum á grunnskólaaldri. Verið er að vinna að rakningu í þessum tilfellum.

Þessi smit ná inn í flesta grunnskólana og hvetjum við foreldra að halda börnum sínum til hlés í samskiptum við önnur börn á meðan rakning fer fram og yfirsýn næst, á það einnig við um íþróttaæfingar. Jafnframt hvetjum við fólk til að skrá sig og börn sín í sýnatöku finni það til einkenna.“