Fara í efni
Fréttir

Býður flóttafólki kjallaraíbúð til láns

Umfjöllun Fréttablaðsins í dag.

Michael Jón Clarke, tónlistarmaður á Akureyri, stendur í ströngu við að standsetja kjallarabúð sem hann hyggst bjóða flóttafólki frá Úkraínu til láns. 

„Það fer svo rosalega fyrir brjóstið á mér að geta ekki gert neitt. Ég sé myndir af krökkum á flótta, labbandi með einn bangsa. Ég verð að gera eitthvað,“ segir Michael í samtali við Fréttablaðið í dag.

Þar kemur fram að Michael sé í húsaskiptafélagi sem kallast House Exchange, þar sem aðeins er greitt með punktum. Félagið sendi út tilkynningu fyrir skemmstu þar sem biðlað var til fólks sem gæti lánað húsnæði sitt fyrir flóttafólk frá Úkraínu, þá yrði það ábyrgst eins og í öðrum tilfellum, segir í blaðinu.

Út frá þessu fékk Michael þá hugmynd að yfirvöld hér gætu boðið ábyrgðir, afslátt af fasteignagjöldum eða annars konar ívilnanir fyrir þá sem láta húsnæði undir flóttafólk. Málið sé mjög áríðandi og skipuleggja þurfi það hratt.

„Það er fullt af svona ónotuðu húsnæði úti um allt og þetta hlýtur að vera ódýrara en aðrar lausnir,“ segir Michael og nefnir sinn eigin kjallara sem dæmi. „Hér getum við boðið upp á upphitað rými með eldunaraðstöðu og gervihnattasjónvarpi fyrir fjórar eða fimm manneskjur,“ segir hann í Fréttablaðinu.

Ljóð sem Michael Jón orti um stríðið og Akureyri.net birti fyrir nokkrum dögum vakti mikla athygli og er birt með viðtalinu við hann í Fréttablaðinu í dag.

Ljóð Michaels Jóns – Your Finest Hour

Frétt Fréttablaðsins í dag