Fara í efni
Fréttir

Bústólpi með umboðið fyrir DeLaval á Íslandi

Bústólpi á Akureyri hefur gengið frá samningum við DeLaval um umboð og þjónustu fyrir vörur fyrirtækisins á Íslandi. Bústólpi hefur um árabil selt DeLaval mjaltaþjóna og annan tæknibúnað fyrir mjólkurframleiðslu bænda, en í samstarfi við Fóðurblönduna í Reykjavík sem umboðasaðila á Íslandi. 

Bústólpi hóf að þjónusta mjaltabúnað árið 2010 og fyrstu mjaltaþjónarnir voru seldir í árslok 2012. Þessi starfsemi hefur vaxið ár frá ári og árið 2016 fluttist þjónustan á búnaðinum alfarið til Bústólpa.

Fjöldi DeLaval mjaltaþjóna hefur meira en þrefaldast á þessum árum og í dag starfa sjö manns við þessa deild hjá Bústólpa. Með breytingunum nú hyggjast fyrirtækin auka skilvirkni og bæta enn frekar þjónustuna á þessum mikilvæga búnaði, að sögn Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóra Bústólpa. 

DeLaval er stórt alþjóðlegt fyrirtæki með tæknilega yfirburði á sínu sviði og því afar góður samstarfsaðili, segir Hólmgeir. „Þetta er því stórt skref fyrir okkur og gefur okkur færi til frekari vaxtar á þessu sviði.“

„Þó svo fóðurframleiðsla sé meginstarfsemi Bústólpa þá fer þetta mjög vel saman því þarna erum við að selja hátæknibúnað bæði til mjalta og fóðrunar kúnna og veitum við einnig ráðgjöf um allt ferlið hjá mjólkurframleiðendunum.“

Hólmgeir segir nýjasta mjaltaþjóninn frá DeLaval gríðarlega öflugt tæki sem eigi sér í raun enga hliðstæðu á markaði þar sem hann geri bóndanum kleift að fylgjast með heilsufari kúnna og um leið beiðmálum og hvort kýrnar haldi og gangi með kálf á réttum tíma.

Bústólpi er í dag með sólarhrings viðgerðaþjónustu fyrir mjaltaþjónana enda mega þau tæki aldrei stöðvast hjá bændum, að sögn Hólmgeirs.