„Brúa bilið“ með 105 þús. króna heimgreiðslum
Bæjarstjórn Akureyrar ákvað í gær að vegna skorts á leikskólaplássi muni sveitarfélagið greiða foreldrum barna með lögheimili í bænum 105.000 krónur á mánuði – svokallaða heimgreiðslu – til að „brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til barn er innritað hjá dagforeldri eða býðst leikskólapláss,“ eins og segir í reglum um greiðslurnar.
Heimgreiðslurnar eru greiddar sem styrkur og eru framtalsskyldar til skatts.
Greiðslur allt að 11 mánuðum
Hér er um tilraun að ræða og gilda reglurnar til 31. júlí árið 2024. Foreldrar geta fengið heimgreiðslur í allt að 11 mánuði á ári.
Í reglum um heimgreiðslurnar segir: „Foreldrum/forráðamönnum barna með lögheimili í Akureyrarbæ er heimilt að sækja um heimgreiðslur, enda njóti þeir ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barns og eru að bíða eftir leikskólaplássi. Foreldrar/forráðamenn hafa rétt á að sækja um heimgreiðslur frá 12 mánaða aldri barns.“
Reglurnar voru samþykktar í bæjarstjórn með átta atkvæðum. Þrír bæjarfulltrúar sátu hjá.
Greina árangur – ekki starfshópur
Á fundinum var samþykkt var samhljóða tillaga Hildu Jönu Gísladóttur, Samfylkingu, þess efnis að gerð verði greining á árangri tilraunaverkefnisins með sérstakri áherslu á framkvæmd jafnréttismats.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir lagði fram tillögu um að bæjarstjórn kæmi á laggirnar starfshópi sem falið yrði að koma með tillögur um hvernig hægt sé að stíga næstu skref við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, og tryggð yrði aðkoma fagfólks, foreldra og kjörinna fulltrúa. Tillaga Jönu Salóme var hins vegar felld 6 – 5.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar, skrifar grein um málið sem birtist á Akureyri.net í dag. Smellið hér til að lesa grein Sunnu.
UPPFÆRT – Sótt verður um heimgreiðslur í Þjónustugátt Akureyrarbæjar og er unnið að því að gera umsóknarformið í þjónustugáttinni. Greiðslurnar hefjast 1. september þegar reglurnar taka gildi.