Fara í efni
Fréttir

Brotamenn verða að gjalda fyrir brot sín

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands, segir í grein á Akureyri.net í dag að á undanförnum árum hafi færst mjög í vöxt að tilkynningar um svarta atvinnustarfsemi berist til verkalýðshreyfingarinnar. Innan ferðaþjónustunnar séu slíkar tilkynningar áberandi, oft á tíðum virðist brotaviljinn fyrirtækja einbeittur og mörg dæmi séu um stórfelld svik og að kjarasamningar séu þverbrotnir.

Hann bendi engu að síður að þótt svört atvinnustarfsemi sé oftast bendluð við ferðaþjónustuna sé „rétt að taka fram að flest fyrirtækin í greininni fara eftir lögum og reglum. Það eru hins vegar allt of mörg fyrirtæki sem hafa komist upp með að brjóta gróflega á launafólki og svíkja undan skatti. Þannig komast þau upp með að greiða minna til samfélagsins.“

Björn leggur áherslu á að ekki sé hægt að líða að ekki sé farið að lögum og reglum og undirstrikar að greinin hafi verið styrkt fjárhagslega í kjölfar heimsfaraldursins úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. „Starfshópur Alþýðusambands Íslands um framtíð ferðaþjónustunnar hefur skilað skýrslu til miðstjórnar sambandsins, þar sem stefnuskjal með áherslum ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar var samþykkt. Í skýrslunni er bent á að í stefnu stjórnvalda um ferðaþjónustuna er ekki með einu orði vikið að starfsfólki í greininni. Starfsfólkið er auðvitað einn af hornsteinum greinarinnar. Undirstrikað er að verkalýðshreyfingin eigi skýlausan rétt á aðkomu að stefnumótun stjórnvalda um framtíð og enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar,“ segir hann og bendi á nokkur atriði sem ASÍ krefjist - m.a. þess að án tafar verði lagt fram á Alþingi frumvarp til starfskjaralaga með sterku ákvæði um sektir og stjórnvöld tryggi að brotamenn þurfi að gjalda fyrir brot sín.

Grein Björns