Fara í efni
Fréttir

Breytingar á þjónustu við heimsendingar

Hugrún Helga Guðmundsdóttir og Arinbjörn Þórarinsson á Greifanum

Sú breyting verður á þjónustu veitingahússins Greifans frá og með morgundeginum að aðeins verður opið fyrir heimsendingar frá kl. 11.30 til 14.00. Áfram verður hægt að sækja pantanir á Greifann með óbreyttum hætti, að því er segir í tilkynningu, þar sem einnig er vakin athygli á því að enn frekari áhersla verði lögð á heimsendingu frá Sprettinum, sem er í eigu sömu aðila.

„Einföldun á starfseminni, sérstaklega á kvöldin, gerir okkur kleift að sinna viðskiptavinum í veitingasal á Greifanum enn betur. Spennandi nýir réttir eru á teikniborðinu og öll þjónusta ætti að verða hraðari og skilvirkari,“ er haft eftir Arinbirni Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Greifans, í fréttatilkynningu. Hann segir hægt að „kjarna“ starfsemina þannig: Greifann sem veitingahús og svo Sprettinn, þar sem áherslan sé á heimsendingu og take away; það er að segja að fólk sæki sjálft þann mat sem það pantar .

Góð staðsetning og rafbílavæðing

„Frá og með morgundeginum, 1. júní, verður aðeins opið fyrir heimsendingu af Greifanum á milli kl 11:30 og 14:00 alla daga. Lágmark í heimsendingu hækkar einnig en panta þarf fyrir a.m.k 8000 kr til þess að geta fengið heimsent,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.

„Staðsetning Sprettsins í Kaupangi við Mýrarveg er frábær að okkar mati, í miðju bæjarins með góðri aðkomu og fjölda bílastæða. Það skiptir miklu máli í heimsendingu að vera miðsvæðis og sérstaklega að það sé greiður aðgangur til og frá staðnum svo það taki sem skemmstan tíma að koma vörunni til viðskiptavina. Búið er að setja upp nýjan pizzaofn á Sprettinum sem er einn afkastamesti ofn landsins. Útkeyrslubílum og útkeyrslufólki verður fjölgað til að geta bætt í og aukið þjónustuna af Sprettinum.“

Spretturinn er til húsa í Kaupangi.

„Við vorum einnig að uppfæra heimasíðuna okkar á Sprettinum. Nú geta innskráðir notendur t.d. pantað „sama og síðast“, prentað kvittanir og búið til og vistað sínar vörur. Hægt verður að vista kortaupplýsingar svo ekki þurfi að slá þær inn við hverja pöntun og viðskiptavinir í reikningsviðskiptum geta gengið frá viðskiptum á síðunni. Eins geta viðskiptavinur nýtt sér Apple Pay sem greiðslumáta og unnið er að því að koma Google Pay og Aur í gagnið,“ segir í tilkynningunni.

Ný heimasíða: www.spretturinn.is

„Við breytinguna þarf ekki lengur að halda úti tvöföldum bílaflota,“ segir jafnframt. „Við það skapast tækifæri til endurnýjunnar flotans og er stefna okkar að allir bílar verði orðnir rafbílar innan þriggja ára. Það sem og bætt nýting flotans mun klárlega minnka okkar kolefnisspor.“

Nýr og öflugur pizzaofn eykur afkastagetu Sprettsins til muna, segir í tilkynningunni.