Börn hefja nám á Klöppum í september
Framkvæmdir við leikskólann Klappir við Glerárskóla ganga samkvæmt áætlun og skólinn verður tekinn í notkun í haust. Fjallað er um framkvæmdirnar, og körfuboltavöllinn Garðinn hans Gústa, sem Akureyri.net hefur áður greint frá, á heimasíðu Akureyrarbæjar.
„Í desember 2018 var tekin ákvörðun um að fara í byggingu á leikskóla (Klappir) við Glerárskóla. Miðað var við 145 barna leikskóla og að tekin yrðu inn börn frá eins árs aldri. Heildarstærð skólans er um 1450m² og skiptist húsið í tvær hæðir og eru þar 7 eins deildir með sameiginlegu miðjurými í gegnum allan skólann,“ segir á vef bæjarins.
„Húsið er steinsteypt með múrklæðningu að utan og allir innveggir eru steyptir, sandsparslaðir og málaðir. Á efri hæð hússins eru yngri deildirnar ásamt ungbarnadeild, stjórnunarálmu og kaffiaðstöðu. Á neðri hæð hússins eru elstu tvær deildirnar ásamt eldhúsi og tengigangi inn í Glerárskóla og íþróttahús. Framkvæmdir hófust í apríl 2020 og er áætlað að þeim ljúki í lok ágúst 2021. Stefnt er að því að taka börn inn í leikskólann í byrjun september 2021. Unnið er að frágangi innanhúss og er lóðarfrágangur eins í fullum gangi.
Framkvæmdir eru einnig að hefjast við uppsetningu á körfuboltavelli (Garðinum hans Gústa) norðan við B-álmu Glerárskóla. Sett verður upp girðing umhverfis völlinn og meðfram norðurhlið vallarins verður svæði fyrir áhorfendabekki og gróðurbelti. Umsjón með uppsetningu og framkvæmd verður hjá vinum Ágústs H. Guðmundssonar í nánu samstarfi við Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar. Ágúst lést langt fyrir aldur fram en hann var mikill unnandi körfuknattleiks og markaði djúp spor í sögu íþróttarinnar hér á Akureyri. Ágúst spilaði körfuknattleik með Þór á sínum yngri árum ásamt því að hafa verið þjálfari hjá félaginu til margra ára og er hann sigursælasti þjálfari í sögu félagsins.“
Körfuboltavöllurinn Garðurinn hans Gústa, sem verður norðan Glerárskóla við sparkvöllinn.