Fara í efni
Fréttir

Boltakonur saman á kvennakvöldi

Boltakonur í Þór og KA taka sig saman og halda sameiginlegt kvennakvöld í Sjallanum á laugardagskvöld, en þar sem jafnt verður eftir venjulegan leiktíma verður framlengt í Sjallanum með sameiginlegu balli kvennakvöldsins og herrakvölds Þórs sem verður í íþróttahúsi Síðuskóla á sama tíma. Örfáir miðar eftir  samkvæmt okkar heimildum.

Í fyrra var haldið sameiginlegt kvennakvöld handbolta- og knattspyrnuliða kvenna á Akureyri, KA/Þórs og Þórs/KA, og heppnaðist vel. Nú stíga konurnar næsta skref, fara í stærra hús og stækka kvöldið með víðari samvinnu innan Þórs og KA og það eru engin smálið sem bætast við, nýkrýndir Íslandsmeistarar KA í blaki og kvennalið Þórs í körfubolta sem tryggði sér í vor sæti í Subway-deildinni. Það var líka vel til fundið hjá stelpunum í Þór/KA að tylla sér á topp Bestu deildarinnar einmitt núna, nokkrum dögum fyrir kvennakvöldið. Handboltakonurnar í KA/Þór komust í úrslitakeppnina í vor - og tvö lið úr yngri flokkum liðsins hömpuðu Íslandsmeistaratitli. 

Kvennakvöldið er semsagt haldið til styrktar fyrir kvennaliðin í blaki hjá KA, körfubolta hjá Þór, handbolta hjá KA/Þór og fótbolta hjá Þór/KA. 

Skemmtikraftar verða að verulegu leyti samnýttir á báðum samkomunum og dagskráin almennt svipuð, happdrætti með vinningum upp á rúma milljón og uppboð sem Gummi Ben stýrir þar sem í boði verða málverk eftir Elvu Ragnarsdóttur - sem sumir þekkja sem Elvu hans Mola, Elva góða Elva, ég er Molinn þinn, eins og Bjarni Hafþór orti í afmælissöng Mola. Þetta var útúrdúr. Hvaða konu langar ekki í Buggyferð með Finni Aðalbjörns eða að eignast landsliðstreyju frá Söndru Maríu Jessen? Bara spurning um að bjóða hæst og hreppa hnossið.