Fréttir
Boeing 737-Max í fyrsta innanlandsfluginu
22.05.2021 kl. 06:00
Boeing 737 MAX-flugvél Icelandair á Akureyrarflugvelli í gær. Ljósmynd: Hörður Geirsson.
Boeing 737 MAX-flugvél Icelandair lenti á Akureyrarflugvelli síðdegis í gær og var það í fyrsta skipti sem vél af slíkri gerð er notuð í áætlunarflugi innanlands hér á landi. Ástæða var sú að Q400-vél félagsins, sem venjulega er notuð í slíkt flug, ílengdist í viðhaldi.
Því var ákveðið að sameina tvö flug til Akureyrar; MAX-vélarnar taka 160 farþega en 76 rúmast í Q400. Ekki er langt síðan innanlandsflugið, sem rekið í nafni Air Iceland Connect, sameinaðist millilandafluginu undir merkjum Icelandair. „Þarna koma kostir samþættingar félaganna vel í ljós – það er ánægjulegt hvað aukinn sveigjanleiki gerir okkur kleift að bregðast við aðstæðum sem þessum,“ sagði í tilkynningu frá Icelandair.