Blússandi uppgangur hjá Blush á Akureyri
Kynlífstækjaverslunin Blush, sem opnur var á Glerártorgi fyrr á árinu, hefur verið í stanslausum vexti frá fyrsta degi. Gerður Arinbjarnardóttir, eigandi Blush, segir Akureyringa hafa tekið versluninn afar vel og sér hún eiginlega eftir því að hafa ekki opnað stærri verslun í bænum.
„Það hefur gengið vonum framar, miklu betur en við þorðum að vona. Það sem hefur líka komið okkur skemmtilega á óvart er að það er búinn að vera stanslaus vöxtur frá fyrsta degi. Fyrstu þrír mánuðurnir gengu ótrúlega vel og ég var farin að tempra væntingarnar hjá starfsfólkinu og segja þeim að nú gæti salan farið að minnka, en þetta hefur bara verið upp á við hvern einasta mánuð síðan við opnuðum,“ segir Gerður. „Ætli það sé ekki bara svolítið að spyrjast út að verslunin sé notaleg og að það sé ekkert feimnismál að koma þangað? Ég hugsa það hafi verið viss hópur sem var tilbúinn að koma til okkar strax í upphafi. Síðan voru aðrir sem langaði að koma en voru ekki alveg tilbúnir strax en þessi hópur er byrjaður að koma. Síðan er þriðji hópurinn líka byrjaður að mæta, hópurinn sem ætlaði aldrei að láta sjá sig í svona verslun.“
Þetta er 100 fermetra rými sem við tókum en ég hugsa stundum að við hefðum átt að vera hugrakkari og taka 200 fermetra. En svo þarf maður líka bara að vera raunsær, hversu stóra kynlífstækjaverslun þarf Akureyri?
Verslun Blush var opnuð á Glerártorgi í mars. Inngangurinn í verslunina er á norðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar.
Djarft að opna í verslunarmiðstöð
Verslunin á Akureyri er önnur verslun Blush og sú fyrsta utan höfuðborgarinnar. „Það var kannaski alveg djarft að opna í verslunarmiðstöð en við fórum mjúku leiðina með því að hafa sérinngang bakatil,“ segir Gerður spurð að því hvernig það hafi komið út að hafa kynlífstækjaverslun staðsetta á jafn áberandi stað í bænum og á Glerártorgi. Segir hún að á þeim þrettán árum síðan hún hóf sinn rekstur hefur viðhorf fólks til hjálpartækja ástarlífsins gjörbreyst. Það sé því bara eðlilegt í dag að kynlífstækjaverslun sé aðgengileg á jafn fjölförnum stað og á Glerártorgi. „Þetta er 100 fermetra rými sem við tókum en ég hugsa stundum að við hefðum átt að vera hugrakkari og taka 200 fermetra. En svo þarf maður líka bara að vera raunsær, hversu stóra kynlífstækja verslun þarf Akureyri?“ segir Gerður og bætir við að í minni verslun sé hægt að vera með meira rennerí á vöruúrvalinu og þá sé auðvitað líka alltaf hægt að kaupa þær vörur sem ekki eru í versluninnin, á netinu. „Svo erum við líka farin að bjóða upp á fríar heimakynningar á Akureyri og nágrenni. Það er búin að vera biluð eftirspurn eftir því, sérstaklega í sumar í gæsapartí og slíkt.“
Gerður, sem er frá Akureyri, hélt nýlega skemmtilegan fyrirlestur hjá Drift EA á Akureyri fyrir fullu húsi. Gerður sagði þar frá tilurð Blush og ýmsum áskorunum og hindrunum sem orðið hafa á vegi hennar í rekstrinum.
Góðar móttökur á Akureyri
Fyrst verslunin á Akureyri hefur gengið svona vel er við hæfi að spyrja hvort Gerður sé að spá í að opna fleiri Blush verslanir úti á landi og segist hún alveg vera opin fyrir þeim möguleika. „Þetta er pínu eins og að spyrja konu sem er nýbúin að eignast barn hvenær hún ætli í næsta. Það er ekki ár síðan við opnuðum á Akureyri og við erum bara enn að jafna okkur. Við erum bjartsýn en áttum okkur jafnframt á því að salan getur alltaf minnkað. Fólk var búið að vara mig við því að fólk myndi ekki endilega mæta í búðina heldur bara halda áfram að panta á netinu en þannig hefur það ekki verið“, segir Gerður en að hennar sögn hefur orðið aukning í sölu bæði í netverslun á svæðinu sem og í versluninni sjálfri. „Akureyringar hafa tekið okkur ótrúlega vel og við erum afar þakklát fyrir það. Okkur hefur fundist orðið vera að spyrjast vel út meðal Akureyringa og það skiptir okkur máli.“