Fara í efni
Fréttir

BKNE: Ólöglegur aðalfundur og ógilt formannskjör?

Hanna Dóra Markúsdóttir, til vinstri, og Helga Dögg Sverrisdóttir.

Starfsemi Bandalags kennara á Norðurlandi eystra (BKNE) virðist í uppnámi eftir að tilkynning birtist á Facebook-síðu þess á öðrum tímanum í dag um að aðalfundur deildarinnar, eins og það er orðað, hafi verið ólöglegur og formannskjör þar sem Hanna Dóra Markúsdóttir, kennari við Brekkuskóla, var sjálfkjörin þar með ógilt. Hanna Dóra var kjörin í stað Helgu Daggar Sverrisdóttur, en styr hefur staðið um Helgu Dögg vegna umdeildra skrifa hennar um transfólk. BKNE er félag grunnskólakennara í landslutanum og sem slíkt deild eða aðili að Félagi grunnskólakennara.

Tilkynningin hvarf síðan aftur af síðunni um kvöldmatarleytið á meðan fréttin var í vinnslu. Þá höfðu skapast umræður í athugasemdakerfinu undir tilkynningunni og meðal annars talað um leikrit formannsins og skrípaleik og átt við fráfarandi formann, Helgu Dögg Sverrisdóttur.

Málið virðist snúast annars vegar um það að ekki hafi verið boðað til aðalfundarins með þeim fyrirvara sem ber samkvæmt lögum félagsins og hins vegar að lagabreyting sem gerð var á fundinum hafi ekki öðlast gildi strax og því standist ekki að kjósa nýjan formann samkvæmt lögunum, auk þess sem ógilding aðalfundarins myndi ógilda formannskjörið hvort eð er.

Umhugsunarefni fyrir stjórn og forsvarsmenn kennarafélaga

Sá leiði atburður átti sér stað á aðalfundi deildarinnar 5. október sl. að formannskjörið var ógilt. Af því leiðir að nýr formaður tekur ekki við,segir meðal annars í hinni horfnu tilkynningu. Þar segir einnig að stjórn deildarinnar, fundarstjóra, formanni Félags grunnskólakennara og stjórnarmanni FG sem voru á fundinum án þess að grípa inn í beri að axla ábyrgð. Ekki er útskýrt nánar í tilkynningunni í hverju það ætti að felast. Þá segir að eftir blaðaumfjöllun hafi fjölmargir haft samband við formanninn og bent á lögbrotið, eins og það er orðað.


Skjáskot af tilkynningunni sem birtist á Facebook-síðu BKNE og hvarf aftur nokkrum klukkustundum síðar.

Í einni athugasemdinni undir hinni horfnu tilkynningu er bent á að lög svæðisfélaga öðlist ekki gildi fyrr en stjórn FG hafi staðfest þau. Það sé því rétt að formaður FG hefði átt að stöðva gjörninginn og passa upp á fundarsköp og félagalög. Því miður hafi þessi atburður valdið mörgum tjóni, en fyrst og fremt hljóti hann að vera umhugsunarefni fyrir stjórn og forsvarsmenn kennarafélaga því þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fundarsköp eru brotin og fjölmiðlum blandað inn í hitamál hjá kennurum.

Ólöglegur fundur og lagabreytingar ekki tekið gildi?

Málið virðist, samkvæmt tilkynningunni og umræðum um hana, snúast annars vegar um boðun aðalfundarins og hins vegar um það hvenær samþykktar lagabreytingar (ef fundurinn væri löglegur) eigi að taka gildi.

Í tilkynningu á Facebook-síðu BKNE þann 27. september kemur fram að tillaga sem barst stjórninni um kjör formanns verði lögð fyrir á aðalfundi. Breytingin snýst um orðalag í 4. grein um stjórn og kosningu í hana. Þar stóð áður að nýr formaður skuli kosinn til tveggja ára, en endurkjörinn til eins árs í senn. Breytingartillagan gekk út á að formaður skuli kosinn til árs í senn. Í lok tilkynningarinnar segir: Gangi breytingin eftir ber að kjósa formann á fundinum.

Í stuttri tilkynningu þann 6. október, að loknum hinum meinta ólöglega aðalfundi, kemur fram að Hanna Dóra Markúsdóttir, kennari í Brekkuskóla, hafi verið sjálfkjörin sem formaður deildarinnar á fundinum deginum áður. Ein lagabreyting varð. Nú skjal kjósa formann til árs í senn.

Vitnað í hæstaréttarlögmann

Fram kemur í áðurnefndri tilkynningu frá því í dag að Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari, hafi verið fenginn til að skoða atburðarásina varðandi boðun fundarins og lagabreytinguna. Í tilkynningunni er vitnað í Arnar Þór varðandi atburðarásina og bent á að fundarboð hafi verið sent út seint um kvöld 25. september 2023 og þá fyrst tilkynnt um fyrirhugaða breytingartillögu á lögum félagsins.Því hafi ekki liðið fullir tíu dagar frá fundarboði fram að aðalfundinum 5. október. Bent er á að skýrt komi fram í lögunum að boðað skuli til aðalfundar með minnst tíu daga fyrirvara.

Þá segir einnig í tilkynningunni þar sem vitnað er í Arnar Þór:

Ennfremur er á það bent að jafnvel þótt talið yrði að fundurinn hafi verið löglega boðaður, þá hljóti kosning til embættis formanns að teljast ógild, því félagsmönnum gafst ekki viðhlítandi tími til að bjóða sig fram til formennsku. Að loknu samþykki lagabreytinganna hefði þurft að slíta fundinum og boða nýjan aðalfund með tilskildum fyrirvara. Með því að þetta var ekki gert og ekki leitað afbrigða á fundinum fyrir því að strax færi fram kosning um nýjan formann samkvæmt nýjum lögum og án tilskilins aðdraganda telst sú kosning ógild. Leiðir þetta af almennum reglum um bann við afturvirkni laga og þess að kosningin fór fram á fundi sem boðaður hafði verið og haldinn á grunni eldri laga.

Að áliti Arnars Þórs telst því kosning nýs formanns BKNE á aðalfundinum 5. október hafa verið ógild.