Fara í efni
Fréttir

Björn Þórarinsson – „Bassi“ – er látinn

Björn Þórarinsson tónlistarmaður er látinn, 81 árs að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 7. september 1943 og lést í Hveragerði í gær, 16. september, í faðmi fjölskyldunnar eftir skammvinn veikindi.

Björn var sjaldnast kallaður annað en Bassi og gjarnan tengdur við hljómsveitina Mána frá Selfossi, en á Akureyri þekktu margir hann sem Bassa í Tónræktinni, og kenndu þannig við tónlistarskólann sem hann stofnaði og rak ásamt Sigríði Birnu Guðjónsdóttur eiginkonu sinni.

Björn og Sigríður Birna gengu í hjónaband 3. júlí 1982.

Dætur þeirra eru tvær:

1) Unnur Birna Björnsdóttir, f. 1987, í sambúð með Sigurgeiri Skafta Flosasyni. Börn þeirra eru Náttsól Viktoría f. 2020 og Björn Óliver Armand f. 2023.

2) Dagný Halla Björnsdóttir f. 1993, í sambúð með Skúla Gíslasyni. Barn þeirra er Sylvía Mjöll f. 2023. Dagný á tvær stjúpdætur, þær Berglindi f. 2011 og Adríönu f. 2012.

Fyrir átti Björn þau Steinunni Evu f. 1964, Halldóru Rósu f. 1966, Ingibjörgu f. 1967 og Björn Sigmund f. 1970 d. 1974. Þá á Björn stjúpsoninn Friðrik Hermann, f. 1965.

Björn ólst upp á bænum Glóru í Hraungerðishreppi. Foreldrar Björns voru Ingibjörg Björnsdóttir og Þórarinn Sigmundsson. Systkini hans eru Guðrún Sigríður, Kristín og Ólafur Stefán (Labbi). Hálfbróðir samfeðra er Bjarni Sæberg f. 1936.

Björn Þórarinsson fetaði tónlistarbrautina ungur; byrjaði að leika á gítar 16 ára með Carol kvintett, vinsælli danshljómveit á Suðurlandi og var svo fenginn til liðs við fleiri hljómsveitir; m.a. Safír sextett og Hljómsveit Óskars Guðmundssonar.

Árið 1967 gekk hann til liðs við rokkhljómsveitina Mána á Selfossi, þar sem fyrir var m.a. Ólafur bróðir hans, alltaf kallaður Labbi. Í Mánum lék Björn á Hammondorgel. Seinna stofnaði hann hljómsveitina Kaktus sem naut einnig mikilla vinsælda og síðan fleiri hljómsveitir, m.a. Pardus og Rætur, og spilaði ýmist á hljómborð, gítar, bassa og greip jafnvel í saxafón.

Björn og Sigríður Birna fluttu norður í land þegar hann var ráðinn skólastjóri Tónlistarskólans á Laugum árið 1990. Nokkrum árum síðar fluttu þau til Akureyrar þar sem Björn kenndi við Tónlistarskólann á Akureyri þangað til þau stofnuðu Tónræktina árið 2004 og ráku til ársins 2014. Þá fluttust þau í Hveragerði og bjuggu þar síðan.

Björn Þórarinsson samdi tónlist fyrir barnakóra, blandaða kóra, einsöngvara og hljómsveitir og tók þátt í mörgum mismunandi verkefnum sem hljómborðsleikari og tónlistarstjóri. Hann var bæjarlistamaður Akureyrarbæjar árið 2009.