Björn sjálfkjörinn í formannsembættið

Björn Snæbjörnsson tekur við sem formaður Landssambands eldri borgara á árlegum landsfundi samtakanna á morgun, þriðjudaginn 29. apríl. Björn verður sjálfkjörinn, en Helgi Pétursson er rétt í þessu að ljúka sínu fjórða og síðasta ári sem formaður samtakanna, og framboð Björns var það eina sem barst.
Landsfundurinn verður haldinn á Park Inn hótelinu í Reykjanesbæ, en dagskráin er þétt. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, mun mæta á fundinn og félags- og húsnæðismálaráðherra, Inga Sæland, mætir líka. Ráðuneyti hennar er nærtækt þegar kemur að helstu hagsmunamálum eldri borgara í dag, en það eru kjaramál og húsnæðismál, og segir í fréttatilkynningu frá LEB að þessum málefnum verði gert hátt undir höfði á fundinm.
Björn þekkir vel til að vinna að hagsmunum af þessu tagi, en hann var formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, auk þess að sinna formennsku kjarahóps Félags eldri borgara á Akureyri og formennsku kjaranefndar LEB.
Hér má skoða dagskrá fundarins á vefsíðu LEB.