Björn höfðar dómsmál vegna uppsagnar
Björn Þorláksson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, hefur ákveðið að höfða dómsmál gegn Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra vegna ákvörðunar Sigrúnar Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar (UST), um að segja Birni upp starfi fyrr á árinu samfara niðurlagningu starfs hans. Uppsögnin brjóti gegn lögum. Þetta kemur fram á mbl.is í morgun, þar sem rætt er við lögmann Björns.
Björn starfaði hjá UST í ríflega fjögur ár, með aðsetur í starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri.
Lögmaður Björns, Jón Sigurðsson, sendi fyrir hönd Björns og stéttarfélags hans, Fræðagarðs, bréf til forstjóra UST í febrúar þar sem þess var krafist að fallið yrði frá niðurlagningu á starfi Björns tafarlaust og honum boðið starfið að nýju. Að öðrum kosti væri UST krafin um fébætur vegna þess tjóns sem hann óhjákvæmilega verður fyrir vegna starfsmissis af völdum ólögmætra ákvarðana stofnunarinnar.
Í samtali við mbl.is segir Jón að einu viðbrögðin sem hafi borist sé að kröfunni sé hafnað. Því sé ekki annað í boði en að fara með málið fyrir dóm og það verði að vera gegn umhverfisráðherra þar sem hann fari með fyrirsvar fyrir stofnunina fyrir dómi.
Smelltu hér til að lesa fréttina á mbl.is