Fara í efni
Fréttir

Björgunarsveitin Súlur fær meira pláss

Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, er að byggja vélaskemmu við húsnæði sitt við Hjalteyrargötu. Langþráður draumur, segir formaður sveitarinnar.

Ný vélaskemma er nú í byggingu hjá Súlum, björgunvarsveitinni á Akureyri. Byggingin er langþráð en með tilkomu hennar verður hægt að hýsa öll tæki sveitarinnar innandyra.

Að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns björgunarsveitarinnar, mun nýja byggingin létta mjög á starfssemi sveitarinnar, bæði hvað varðar æfingar og flugeldasölu. Þá verður kærkomið að ná að geyma öll tæki sveitarinnar innandyra. Skóflustunga að byggingunni, sem er staðsett norðan við húsnæði sveitarinnar við Hjalteyrargötu, var tekin í júní en um er að ræða 350 fm skemmu með fjórum bilum fyrir tæki sveitarinnar. Aðspurður að því hvenær skemman á að verða tilbúin segir Halldór að það sé ekki komin nein föst dagsetning, verkefnið klárist bara þegar það klárist, en að hans sögn hefði verið gaman ef skemman væri tilbúin fyrir 25 ára afmæli björgurnarsveitarinnar í lok október, en þá ætlar björgunarsveitin að bjóða bæjarbúum í heimsókn. Verktakar hafa séð um framkvæmdina en reiknar Halldór með því að vinnan innandyra verði unnin að einhverju leyti í sjálfboðavinnu.

Skóflustungan að vélaskemmunni var tekin þann 3. júní sl. en það hefur verið langþráður draumur hjá björgunarsveitinni að eignast húsnæði sem hýst getur allan þeirra vélakost. Mynd: Facebooksíða Súlna.

Almannavarnir fá meira pláss

Fleiri framkvæmdir eru í gangi hjá björgunarsveitinni því á efri hæðinni er verið að gera nokkrar breytingar. Þar hefur Aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra verið til húsa undanfarin ár. Framkvæmdirnar sem eru nú í gangi miða að því að útbúa stærra og hentugra rými undir starfsemi þeirra og á þeim að ljúka í byrjun vetrar.

Það er margt að gerast hjá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri. 25 ára afmæli er fram undan og þá er nýliðastarf sveitarinnar að fara í gang en nýliðakynning björgunarsveitarinnar verður haldin þann 11. september.