Bjóða út allan rekstur í Hlíðarfjalli
Akureyrarbær hefur ákveðið að bjóða út allan rekstur útivistarsvæðisins í Hlíðarfjalli. Gert er ráð fyrir samningi til þriggja ára til að byrja með, með möguleika á framlengingu um eitt ár í tvígang – fimm ár alls.
Hugmynd um að bjóða út reksturinn í Hlíðarfjalli er ekki ný af nálinni. Málið hefur lengi verið í undirbúningi og bæjarráð rak smiðshöggið á verkið í morgun þegar það samþykkti samhljóða tillögu þessa efnis. Ríkiskaup sjá um útboðið fyrir hönd Akureyrarbæjar og verður það auglýst fljótlega.
Bærinn hefur rekið skíðasvæðið að öllu leyti frá upphafi þar til á síðasta ári að veitingasala og skíðakennsla voru boðin út. Sá sem samið verður við – ef af samningum verður – mun sjá um allt sem viðkemur skíðasvæðinu, auk þess sem viðkomandi gæti boðið upp á einhvers konar aðra starfsemi yfir sumartímann. Hlíðarfjall er dæmis orðið mjög vinsælt hjá hjólafólki.