Fara í efni
Fréttir

Bjóða fólki að prófa svifflug ókeypis

Feðginin Sigurlaug Arngrímsdóttir og Arngrímur Jóhannsson fóru saman eina ferð á svifflugunni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nokkrir svifflugsáhugamenn á Akureyri ætla að bjóða hverjum sem vill að prófa að fljúga í þessari viku, án endurgjalds. Þeir hófu leik í gær, eru með sviffluguna á Melgerðismelum og Arngrímur Jóhannsson flugstjóri fór níu ferðir í gær. Pláss er fyrir tvo í svifflugu hans og reyndur maður í sportinu er vitaskuld ætíð með í för.

„Við viljum reyna að blása lífi í þetta fallega sport sem svifflugið er með því að bjóða gestum og gangandi að prófa. Við verðum innfrá næstu þrjá til fjóra daga, á meðan veðrið er gott,“ sagði Arngrímur þegar Akureyri.net leit við á Melgerðismelum síðdegis í gær. Allt verður tilbúið um klukkan 13.00 alla dagana.

Flugvél dregur sviffluguna á loft en sleppir bandinu  þegar komið er í fyrirfram ákveðna hæð, og tekur hver ferð um 20 mínútur að sögn Arngríms.

Leiðin inn á Melgerðismela er um Eyjafjarðarbraut vestri og til að hitta á svifflugskappana er beygt út af veginum við gamalt flugskýli sem sést vel þaðan.

Akureyri.net tók nokkrar myndir í gær þegar Arngrímur og Sigurlaug dóttir fóru saman á loft í svifflugunni.