Bjarkey Olsen verður matvælaráðherra
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, tekur við embætti matvælaráðherra á ríkisráðsfundi sem haldinn verður á Bessastöðum í kvöld. Ráðherra hefur ekki komið úr Norðausturkjördæmi síðan Kristján Þór Júlíusson lét af embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nóvember 2021.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins verður forsætisráðherra í stað Katarínar Jakobsdóttur sem baðst lausnar og fer í forsetaframboð sem kunnugt er. Bjarkey Olsen er eini nýi ráðherrann en fjórir hafa stólaskipti. Tilkynnt var um breytingar á ríkisstjórn á fundi formanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG með blaðamönnum í dag.
Bjarkey Olsen er 59 ára. Hún hefur setið á þingi fyrir VG síðan 2013. Hún var formaður þingflokks VG 2017 til 2021 og er nú varaformaður þingflokksins.
Um Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur á vef Alþingis
Ríkisstjórnin verður þannig skipuð
Sjálfstæðisflokkur
- Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra (var utanríkisráðherra)
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra (var fjármála- og efnahagsráðherra)
- Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
- Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
Framsóknarflokkur
- Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra (var innviðaráðherra)
- Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra
- Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra
- Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
Vinstri hreyfingin - grænt framboð
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra
- Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra (var matvælaráðherra)
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra