Fara í efni
Fréttir

Birkifræ: Landsátak hefst í Garðsárreit

Garðsárreitur er austan eða norðan við Þverárgil, vinstra megin á myndinni, og þar voru einar síðustu birkiskógaleifar við Eyjafjörð á fyrri hluta síðustu aldar.

Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar við söfnun og sáningu birkifræs hefst formlega í dag, fimmtudag 22. september. Það er Skógræktarfélag Eyfirðinga sem ríður á vaðið í Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit klukkan 17.00 og er fólk hvatt að koma þangað og tína fræ af birki.

„Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnastjóri átaksins, fræðir fólk um birki og söfnun á birkifræi. Að söfnun lokinni verður í boði ketilkaffi og ávaxtasafi. Skógræktarfélag Eyfirðinga er gestgjafinn enda sér félagið um verndun og ræktun Garðsárreits þar sem er að finna eitt elsta náttúrlega birki í Eyjafirði,“ segir í tilkynningu, þar sem almenningur er hvattur til að koma „og hefja átakið með glæsibrag og tína birkifræ.“

  • Nánari upplýsingar um landsátakið má sjá hér

Garðsárreitur

Verndun og ræktun Garðsárreits var fyrsta verkefni Skógræktarfélags Eyfirðinga eftir stofnun 1930 og hefur birkið í Þverárgili verið friðað þar frá árinu 1931. Einmitt í Þverárgili var einn örfárra staða í gervöllum Eyjafirði þar sem finna mátti birkiskógaleifar þegar vörn var snúið í sókn með friðun slíkra leifa á fyrri hluta síðustu aldar. Nú er birki mjög að breiðast út í firðinum með minnkandi beit, aukinni friðun og skógrækt.

Gott er fyrir væntanlega þátttakendur í söfnuninni í Garðsárreit að vita að leggja má bílum við suðausturenda reitsins sem er á norðanverðum gilbarmi Þverárgils. Ekið er Eyjafjarðarbraut eystri og beygt við Þverárbrú inn á afleggjarann að býlinu Garðsá.

Þetta er þriðja árið sem átakið Söfnum og sáum birkifræi fer fram. Þjóðin tók vel við sér þegar efnt var til átaksins fyrst 2020, að því er segir á vef Skógræktarinnar, og mikið safnaðist af fræi sem meðal annars var notað í vélsáningu á stórum uppgræðslusvæðum. „Í ár er fræ að finna á birki í öllum landshlutum en mest er uppskeran þó á Norður-, Austur-, og Suðausturlandi. Ástæða er til að hvetja fólk um allt land til að leggja sitt af mörkum og annað hvort safna fræi og skila því á móttökustöðvar eða sá fræinu sjálft á svæðum þar sem vilji er til að klæða land birkiskógi eða -kjarri,“ segir á vefnum.