Bíllausi dagurinn er runninn upp!
Bíllausi dagurinn er haldinn víða um heim í dag, meðal annars á Akureyri. Þá er fólk hvatt til að fara ekki um á einkabílnum heldur ganga, hjóla eða taka strætó.
„Dagurinn er lokahnykkur samgönguvikunnar sem hófst 16. september og snýst um að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru vistvænir, hagkvæmir, heilsubætandi og hafa um leið jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
„Óvíða eru betri aðstæður en á Akureyri til að sleppa einkabílnum, enda eru vegalengdir stuttar og langoftast fínt veður. KortEr er frábær lausn til að átta sig á því hversu lengi maður er að komast á milli staða innanbæjar á stuttum tíma.“
Hér má fræðast nánar um KortEr
Í tilefni dagsins fá nokkur bílastæði í göngugötunni nýtt hlutverk. Lagt hefur verið á þau gervigras með hjólastandi, bekkjum og fleiru.
Frítt í strætó og ekkert Hopp-startgjald
Á vef Akureyrarbæjar segir ennfremur: „Minnt er á að það er alltaf frítt og hlýtt í strætó á Akureyri. Strætó-appið er auðvelt í notkun og virkar vel til fylgjast með vagninum í rauntíma, finna næstu biðstöð og skipuleggja ferðir.“
Smelltu hér til að nálgast appið.
Fram kemur að rafskútuleigan Hopp vilji einnig hvetja sem flesta Akureyringa til að velja grænu leiðina og í tilefni bíllausa dagsins verður ekkert startgjald við leigu á hlaupahjólunum í dag.
Á vef bæjarins eru Akureyringar hvattir til að deila á samfélagsmiðlum mynd af sér á vistvænni og heilsusamlegri ferð með myllumerkinu #samgönguvika.