Fara í efni
Fréttir

Biðlað til veiðimanna að sýna hófsemi

Ljósmynd: Hugi Ólafsson

Heimilt verður að veiða rjúpu frá 1. nóvember til 4. desember í ár. Sú ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var tilkynnt í dag.

  • Heimilt verður að veiða rjúpu frá föstudegi til þriðjudags, frá kl. 12.00 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.
  • Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.
  • Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.
  • Ráðherra biðlar í tilkynningu til veiðimanna að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi, en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.
  • Ráðherra hvetur veiðimenn til þess að flykkjast ekki á Norðausturland til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.
  • „Ég hef lagt áherslu á að Umhverfisstofnun setji í forgang að hraða vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpuna og að á grundvelli hennar verði fyrirkomulag veiða í framtíðinni ákveðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í tilkynningu.

Þar segir einnig:

„Fyrir liggur tímasett verkáætlun um gerð stjórnunar- og verndaráætlunarinnar. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir miklu samráði og samtali við hagsmunaaðila og að áætlunin verði tilbúin til kynningar um miðjan maímánuð 2023. Áætlunin mun einnig fjalla um gildi og hlutverk griðlanda við veiðistjórnun og mun framtíð griðlandsins á SV-landi koma það til umfjöllunar og endurskoðunar. Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.“