Biðlað til ökumanna að fara mjög varlega
Akureyrarbær biðlar til ökumanna að fara venju framar varlega í umferðinni þessa dagana þegar myrkasta skammdegið grúfir sig yfir bæinn.
Á vef sveitarfélagsins segir að borist hafi ábendingar frá íbúum um afar slæmt skyggni í ljósaskiptunum og þegar dimmt er úti kvölds og morgna. Því er skorað á bílstjóra að hafa nú sem endranær augun hjá sér við aksturinn og vegfarendur eru beðnir að nota endurskinsmerki til að auka öryggi sitt og sinna. Því er sérstaklega beint til foreldra og forráðamanna að ganga úr skugga um að börnin okkar beri endurskinsmerki.
„Stjórnendur vélknúinna ökutækja sjá vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ef þau eru ekki notuð,“ segir á vef bæjarins.
Ýmsar gagnlegar upplýsingar um endurskinsmerki og notkun þeirra er að finna hér.