Biðla til laugargesta að virða reglur
Settar hafa verið upp merkingar við heitu pottana í Sundlaug Akureyrar, þar sem sjá má hve margir mega vera í pottinum í einu. Þetta er gert í ljósi þess að um síðustu helgi þótti heldur of þétt setið í pottunum og var að því fundið, jafnvel þótt tveggja metra reglan gildi ekki um sundlaugar og baðstaði, eins og það er orðað á heimasíðu Akureyrarbæjar.
„Í reglum sem heilbrigðisráðuneytið birti á heimasíðu sinni 13. maí sl. segir að tveggja metra nálægðarmörk gildi ekki á sundlaugarsvæðum en mælst sé til þess að fólk taki mið af þeim eins og kostur er. Þar segir ennfremur að fjöldi gesta hverju sinni megi aldrei vera meiri en sem nemur helmingi af hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Nú hefur það verið metið svo að í Sundlaug Akureyrar sé hæfilegt miðað við aðstæður í búningsklefum og annars staðar á sundlaugarsvæðinu að fjöldi gesta hverju sinni fari ekki yfir 80 manns, að frátöldum börnum og ungmennum sem fædd eru 2005 eða síðar. Það mun gilda þar til frekari tilslakanir hafa verið gerðar á sóttvarnareglum,“ segir í fréttinni.
Elín H. Gísladóttir forstöðumaður Sundlauga Akureyrar býst við fjölda gesta í laugina næstu helgar og biður fólk að virða nálægðarmörk og fjöldatakmarkanir. „Starfsmenn gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að farið að sé eftir þeim reglum sem gefnar hafa verið út um sundlaugar og baðstaði. Nú hafa merkingar verið bættar enn frekar og við biðlum til fólks að virða þær í hvívetna, sýna hvert öðru tillitssemi og virðingu, og muna að við erum öll almannavarnir," segir Elín.
Rétt er að vekja athygli fólks á því að um helgar er aðsókn í laugina yfirleitt mest síðdegis eða eftir kl. 16 þegar skíðafólkið kemur úr Hlíðarfjalli. Til að dreifa álaginu og forðast langar biðraðir við afgreiðslu gæti því verið skynsamlegt að fara í sund að morgni dags eða fyrir klukkan 16, segir á heimasíðu bæjarins.