Betur fór en á horfðist í Krossanesi
Betur fór en á horfðist þegar kviknaði í framleiðsluvél í álþynnuverksmiðju TDK Foil í Krossanesi eftir hádegi. Vélin var alelda þegar slökkviliðið mætti á staðinn og mikill reykur í húsinu. Mikinn reyk lagði raunar út og var mjög áberandi.
Akureyri.net hefur ekki náð sambandi við slökkviliðið en á mbl.is er haft eftir Gunnari Rúnari Ólafssyni, sitjandi slökkviliðsstjóra, að um 30 hafi komið að verkefninu því allir slökkviliðsmenn á frívakt voru verið kallaðir út; allur er varinn góður því unnið er með hættuleg efni í verksmiðjunni. Slökkvistarf tók um 40 mínútur.
„Alelda framleiðsluvél mætti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang. Nákvæm eldsupptök eru óþekkt. Mikill reykur varð auk þess sem mikið rafmagn var á vélinni. Þá má ekki sprauta vatni á álþinnur, líkt og þær sem vélin framleiðir, og voru slökkvistörf því snúnari en ella,“ segir á mbl.is.
„Hópur fólks var við vinnu þegar eldurinn kviknaði. Sjúkrabílar voru kallaðir út til að hlúa að fólkinu, ýmist vegna áfalls eða vegna reykeitrunar. Ekki kom þó til þess að flytja þyrfti nokkurn mann á sjúkrahús.“
Vélin er gjörónýt auk þess sem eitthvað af framleiðsluefninu spilltist, að sögn Gunnars.
- Fyrri frétt Akureyri.net Eldur í verksmiðju TDK Foil í Krossanesi