Fara í efni
Fréttir

Betur fór en á horfðist í bruna

Potturinn er gjörónýtur og pallurinn skemmdur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Mun betur fór en á horfðist þegar eldur kviknaði í heitum potti við einbýlishús í Hamragerði undir kvöld. Potturinn er gjörónýtur eins og nærri má geta, pallurinn og grindverk eitthvað skemmt og sprunga í stórri, nálægri rúðu. Engar skemmdir virðast hins vegar á húsinu sjálfu, nema hvað málning flagnaði af.

Enginn var heima þegar kviknaði í en nágranni tilkynnti um brunann. Mikinn, kolsvartan reyk lagði frá húsinu og sást vel alls staðar í bænum. Slökkviliðið var fljótt á staðinn og ekki tók langan tíma að sigrast á eldinum.

Ekkert er vitað um eldsupptök en rétt að taka fram að ekki er um rafmagnspott að ræða.

Mikinn, kolsvartan reyk lagði frá húsinu. Ljósmynd: Hörður Geirsson.