Betri rekstur á fyrri hluta árs en áætlað var
A- og B-hluti rekstrar Akureyrarbæjar voru reknir með 72 milljóna króna halla, sem er mun betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Miðað var við að hallinn gæti orðið 1.045 milljónir króna og er afkoman á fyrri hluta ársins því 974 milljónum króna betri en búist var við. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar.
Þar er einnig haft eftir Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra að vel megi una við þessa niðurstöðu, en engu að síður þurfi ávallt að vera vakandi í rekstri sveitarfélaga í því umhverfi sem er til staðar í dag. Þar segir einnig:
„Að sjálfsögðu er jákvætt að tekjur hafi aukist og að við höfum náð að halda útgjöldum í skefjum en það er mikil óvissa í rekstrarumhverfinu og Akureyrarbær þarf eins og önnur sveitarfélög í landinu að halda vel á spöðunum og sýna aðhald,“ segir Ásthildur.
Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrri hluta ársins var neikvæð um 489,2 milljónir króna en áætlað hafði verið að rekstrarhalli yrði 1.294,4 milljónir á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því 805,3 milljónum króna betri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
Tekjur samstæðunnar voru samtals 17.933,3 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að þær yrðu 16.540.1 milljónir. Skatttekjur voru 9.079,7 milljónir króna sem er 282,9 milljónum yfir áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 2.714,8 milljónir króna sem er 233,7 milljónum yfir áætlun. Aðrar tekjur voru 6.138,8 milljónir króna sem er 876,6 milljónum umfram áætlun. Tekjur tímabilsins eru því samtals 1.393,2 milljónum króna hærri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 15.598,8 milljónir króna sem er 400 milljónum yfir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 9.765 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 9.803 milljónum. Annar rekstrarkostnaður var 5.455,9 milljónir króna sem er 500 milljónum yfir áætlun. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur voru 1.293 milljónir króna sem er 83 milljónum yfir áætlun. Afskriftir voru 1.053 milljónir samanborið við 1.188 milljónir í áætlun.
Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 2.164,7 milljónir eða 12,07% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 2.063 milljónir og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 287 milljónir. Afborganir lána voru 763 milljónir króna. Handbært fé var 2.771 milljónir króna í lok júní.
Fastafjármunir samstæðunnar voru 61.602 milljónir króna og veltufjármunir 7.745 milljónir. Eignir voru samtals 69.347 milljónir samanborið við 66.971 milljónir í árslok 2023. Eigið fé var 26.951 milljónir króna en var 27.023 milljónir um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 35.394 milljónir en voru 34.023 milljónir í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 7.002 milljónir króna en voru 5.924 milljónir um síðustu áramót.
Veltufjárhlutfall var 1,11 á móti 1,17 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 38,9% í lok júní.
Árshlutareikningurinn fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2024 var lagður fram í bæjarráði í gærmorgun. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað og ókannað.