Fara í efni
Fréttir

Betri niðurstaða en áhorfðist – 1,2 milljarðar í mínus

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrri hluta þessa árs var nokkru betri en áætlun hafði gert ráð fyrir eða sem nemur 606 milljónum króna. Niðurstaðan var neikvæð um 1,2 milljarða króna – 1.196,8 milljónir króna – en áætlun hafði gert ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.802,4 milljónir á tímabilinu – 1,8 milljarðar.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að miðað við rekstrarumhverfi sveitarfélaga á Íslandi í dag hljóti þetta að teljast viðunandi niðurstaða. „Róðurinn hefur verið þungur síðustu árin en með samhentu átaki er okkur að takast að snúa dæminu við og ég sé ekki betur en að nú horfi allt til betri vegar. Með ráðdeild og styrkri fjármálastjórn skilum við betri niðurstöðu en áhorfðist og það er auðvitað af hinu góða,“ er haft eftir bæjarstjóranum á vef Akureyrarbæjar.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrri hluta ársins var neikvæð um rúmlega 1,1 milljarð – 1.137,3 milljónir króna – en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði tæplega 1,9 milljarðar – 1.889,5 milljónir – á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því 752,2 milljónum króna betri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
     _ _ _

     Starfsemi sveitarfélaga er skipt upp í tvo hluta, A og B.

  • Til A hluta telst sveitarsjóður, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti eru fjármögnuð með skatttekjum. Auk aðalsjóðs er um að ræða Eignasjóð gatna o.fl., Fasteignir Akureyrarbæjar og Framkvæmdamiðstöð.
  • Til B hluta teljast stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Þau fyrirtæki og stofnanir sem falla undir B hluta eru: Bifreiðastæðasjóður, Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar Norðurlands, Félagslegar íbúðir, Gjafasjóður Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, Hafnasamlag Norðurlands b.s., Hlíðarfjall Skíðastaðir, Norðurorka hf. og Strætisvagnar Akureyrar.
    _ _ _

Í tilkynningu sem birtist á vef Akureyrarbæjar segir í gær:

  • Tekjur samstæðunnar voru samtals 16.242 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 15.217 milljónir.
  • Skatttekjur voru 8.417 milljónir króna sem er 465 milljónum umfram áætlun.
  • Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 2.319 milljónir króna sem er 152 milljónum yfir áætlun. Aðrar tekjur voru 5.506 milljónir króna sem er 408 milljónum umfram áætlun. Tekjur tímabilsins eru því samtals 1.025 milljónum króna hærri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
  • Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 14.637 milljónir króna sem er 576 milljónum yfir áætlun.
  • Laun og launatengd gjöld voru 9.043 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.979 milljónum.
  • Annar rekstrarkostnaður var 4.912 milljónir króna sem er 526 milljónum yfir áætlun.
  • Fjármagnsgjöld, nettó, voru 1.693 milljónir króna sem er 52 milljónum undir áætlun.
  • Afskriftir voru 1.107 milljónir samanborið við 1.205 milljónir í áætlun.
  • Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 1.746,5 milljónir eða 10,75% af tekjum.
  • Fjárfestingahreyfingar voru 2.321 milljón og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 141 milljón.
  • Afborganir lána voru 701 milljón króna. Handbært fé var 2.945 milljónir króna í lok júní.
  • Fastafjármunir samstæðunnar voru 57.256 milljónir króna og veltufjármunir 6.984 milljónir.
  • Eignir voru samtals 67.606 milljónir króna samanborið við 66.507 milljónir í árslok 2022.
  • Eigið fé var 27.090 milljónir króna en var 28.290 milljónir um síðustu áramót.
  • Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 33.547 milljónir en voru 33.594 milljónir í lok síðasta árs.
  • Skammtímaskuldir voru 6.969 milljónir króna en voru 5.623 milljónir um síðustu áramót.
  • Veltufjárhlutfall var 1,0 á móti 1,27 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 40,1% í lok júní.