Ber aldrei sjó eða pækil á götur – bara vatn
Fyrirtækið Verkval birti áhugaverða færslu á Facebook í gær þar sem því var lýst yfir að starfsmenn þess notuðu einungis hreint vatn við þrif gatna á Akureyri. Fyrirtækið hefði aldrei tekið þátt í að bera sjó eða pækil á götur og hefði þráfalt neitað Akureyrarbæ um slíka þjónustu.
„Meirihluti bæjarbúa er ánægður með að verið sé að sópa laufi og skít af götum bæjarins og þvo þær í kjölfarið eins og gert hefur verið undanfarna daga. Örfáir bæjarbúar eru samt enn brenndir og vantrúa og halda að verið sé að ausa sjó á götur,“ segir í færslunni.
„Verkval ehf vill því taka það skýrt fram að fyrirtækið hefur aldrei tekið þátt í að bera sjó eða pækil á götur og hefur þráfalt neitað Akureyrarbæ um slíka þjónustu. Við viljum hvorki bænum né okkar tækjum það að gera slíkt,“ segir þar.
Viltu smakka?
„Við höfum þvegið götur bæjarins með hreinu vatni og gerðum það síðast í dag. Vatnið er tekið úr vatnsveitu bæjarins, eins ferskt og það best gerist. Þvottabíll okkar mun með mestu ánægju stoppa fyrir hverjum þeim bæjarbúa sem taka vill vatnssýni eða leggja í að smakka vatnið. Bílstjórinn er viljugur að sýna fram á gæði vatnsins með smakkprufu hvenær sem er,“ segir í tilkynningu, sem lýkur á þessum orðum: „Þeir sem hugsanlega enn efast geta fengið að fylgjast með bílnum taka vatn niðri á Óseyri og smakkað vatnið á staðnum. Einnig má hafa beint samband við bílstjórann í síma 897-3258.“