Fara í efni
Fréttir

Barn í Brekkuskóla greinist með kíghósta

Kíghósti hefur greinst í barni í Brekkuskóla á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
 
Þegar smit er í gangi er ástæða til fyrir einstaklinga með öndunarfæraeinkenni að fara varlega í umgengni við ung börn, barnshafandi konur og ónæmisbælda einstaklinga, segir á vef HSN. Þar fremur fram að ekki sé talin ástæða til frekari sóttvarnaraðgerða en að fylgjast með og huga að bólusetningum.
 
Bent er á netspjall Heilsuveru eða ráðleggingar hjá 1700 eftir þörfum.
 
Í síðasta mánuði greindust tveir fullorðnir einstaklingar með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafði kíghósti ekki greinst á Íslandi síðan 2019 og á vef embættis landlæknis segir að hann hafi greinst hérlendis af og til og komi gjarnan í hrinum á þriggja til fimm ára fresta. „Útbreiðsla sjúkdómsins í heiminum hefur farið vaxandi síðustu 20 árin og er sjúkdómurinn landlægur í sumum löndum,“ segir í tilkynningu á vef embættisins. Nánar hér
 

Síðan segir um sjúkdóminn:

  • Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar.
  • Hjá unglingum og fullorðnum einkennist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta og kvefeinkennum.
  • Ungum börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum kíghósta, meðal annars slæmum hóstaköstum og öndunarstoppi og getur sjúkdómurinn verið þeim lífshættulegur.

Um kíghósta á vef embættis landlæknis