Baráttumál að halda launum kennara niðri?

Þórarinn Stefánsson píanókennari við Tónlistarskólann á Akureyri hvetur Akureyrarbæ, önnur sveitarfélag og ríkið – í grein sem birtist á akureyri.net í dag – , „til að ganga í takt með kennurum og knýja á um löngu tímabæra og eðlilega leiðréttingu á launum kennara með því að efna gefin loforð. Þannig komast bæði nemendur og kennarar fljótt aftur til sinna starfa.“
Kennarar eru ekki að biðja um neitt annað en einmitt það, segir hann, „að orð skulu standa og samkomulag frá 2016 virt.“
Þórarinn hefur starfað sem tónlistarkennari í 24 ár og á þeim tíma hefur komið til þriggja verkfalla, að meðtöldu því sem hófst í dag. Hann segir að þrátt að staðreyndirnar tali sínu máli í samskiptum kennara og saminganefndar sveitarfélaga fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, þá vilji hann ekki trúa því að það sé í raun og veru þannig að metnaðarleysi varðandi kjör kennara sé ígrunduð ákvörðun eða stefna þeirra.
Hann segir reyndar síðar í greininni: „Sú staðreynd að kennarar þurfi að grípa til þess örþrifaráðs sem verkföll eru til þess að knýja fram umsamda leiðréttingu fær mig til að efast um raunverulegt erindi sveitarfélaganna við kennara. Er það mögulega þannig í raun og veru, þrátt fyrir allt, þegar öllu er á botninn hvolft, að meginmarkmiðið sé að halda kennurum undir meðallaunum í landinu og langt undir launum annarra sérfræðinga á almennum markaði? Er það svo í huga sveitarstjórnarmanna, að virði kennarastarfsins sé ekki meira en þetta þegar upp er staðið?“
Grein Þórarins: Töfrar tónlistar