Fara í efni
Fréttir

Bærinn rekinn með 752 milljóna afgangi

Mikill viðsnúningur var í rekstri Akureyrarbæjar á síðasta ári; afgangur af rekstri allrar samstæðunnar var 752 milljónir króna en áætlarnir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á tæpa 1,2 milljarða. Árið á undan var niðurstaðan neikvæð um 1,6 milljarða.

Meginskýringar á bættri afkomu sveitarfélagsins eru hærri skatttekjur af útsvari og minni aukning á lífeyrisskuldbindingum en ráð var fyrir gert, að því er segir á vef sveitarfélagsins.

  • Til samstæðunnar, sem svo er kölluð, teljast: Aðalsjóður, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóður gatna og Umhverfismiðstöð, svo og fyrirtæki í eigu bæjarins, s.s. Félagslegar íbúðir, Strætisvagnar Akureyrar, Hlíðarfjall, Hafnasamlag Norðurlands, Norðurorka og Öldrunarheimilin.

Tekjur námu 28,4 milljörðum, jukust um hálfan milljarð á milli ára og voru nokkuð yfir áætlunum sem gerðu ráð fyrir 24,8 milljörðum.

Reikningurinn var lagður fram í bæjarráði í gær. Lögum samkvæmt mun bæjarstjórn fjalla um reikninginn á tveimur fundum; það verður gert 12. og 26. apríl.

Nánar hér á vef bæjarins.