Bæjarstjórn flutt „heim“ í ráðhúsið á ný
Bæjarstjórn Akureyrar fundaði í dag í ráðhúsi bæjarins í fyrsta skipti í tæp fjögur ár. Bæjarstjórnarfundir hafa farið fram í menningarhúsinu Hofi síðan í maí 2018 en bæjarstjórn er sem sagt flutt „heim“ á ný.
Bæjarstjórn fundaði áratugum saman á efstu hæð ráðhússins en eftir að nýta þurfti það rými sem skrifstofuaðstöðu fyrir starfsmenn bæjarins var ákveðið að gera þá tilraun að fundirnir yrðu í Hofi. Fundað var í Hömrum, þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja og mikið pláss fyrir þá sem vilja fylgjast með fundunum.
Héðan í frá verða fundir bæjarstjórnar á 1. hæð ráðhússins, þar sem bæjarráð og ýmsar nefndir funda jafnan. Fámennt hefur verið í áhorfendasætum á fundunum í Hofi síðustu ár en mæti gestir til þess að fylgjast með fundunum í ráðhúsinu er pláss fyrir töluverðan fjölda.