Bæjarstjórinn vill hafa Vínbúð í miðbænum

Flutningur Vínbúðarinnar úr miðbæ Akureyrar hefur vakið umtalsverð viðbrögð meðal bæjarbúa og sitt sýnist hverjum. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar segir að sveitarfélagið hefði mögulega getað stigið fastar niður fæti til að halda versluninni í hjarta bæjarins.
Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær. Þar sagði Ásthildur að bæjaryfirvöld hefðu átt í viðræðum við forsvarsmenn ÁTVR þegar málið kom upp og hafi þá verið lögð áhersla á að rekstur Vínbúðarinnar í miðbænum héldi áfram. Bæjaryfirvöld hafi meðal annars lagt til að minna útibú yrði starfrækt þar, en ÁTVR hefði ekki sýnt því mikinn áhuga. Sagði Ásthildur að henni þætti nýja staðsetningin heldur úr leið fyrir flesta íbúa bæjarins, sérstaklega þá sem ekki væru á bíl. „Það væri eðlilegt að það væru tvær vínbúðir hér á Akureyri, og þeir gætu þá haft litla búð hér í miðbænum en stærri í útjarðinum. En þeir báru við mikilli samkeppni við vefverslanir og svo framvegis. Ég vil ekki kaupa þau rök að það sé það mikið verslað við netverslanir hér á Akureyri að það sé ekki forsvaranlegt að vera með tvær vínbúðir,“ sagði Ásthildur í viðtali við Síðdegisútvarpið.
Erfitt að pína ÁTVR til að vera í miðbænum
Aðspurð hvort bæjaryfirvöld hefðu getað komið í veg fyrir flutninginn sagði Ásthildur að mögulega hefði bærinn getað stigið fastar niður fæti en hins vegar hefði ÁTVR ekki verið til viðræðu um það að endurskoða ákvörðun sína og erfitt fyrir bæinn að pína þá í að vera með verslun í miðbænum. „Ég vona að þeir sjái að sér og átti sig á því að það þarf að vera með vínbúð í miðbænum t.d. í ljósi ferðamannastraums,“ sagði Ásthildur. Akureyri.net spurðist nýlega fyrir um ástæður flutnings Vínbúðarinnar úr miðbænum og fékk þá m.a. þetta skriflega svar frá Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR: „Því miður er ekki fjárhagslegur grundvöllur fyrir rekstri tveggja Vínbúða á Akureyri eins og staðan er í dag.“
Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ hefur starfað í miðbænum til áratuga.
Veikir miðbæinn
Síðdegisútvarpið ræddi einnig við Ragnar Sverrisson, verslunarmann í JMJ, sem er einn af elstu starfandi kaupmönnum í bænum, sem lýsti yfir miklum vonbrigðum með það hvernig bæjaryfirvöld tóku á málinu. „Fyrir nokkrum árum síðan stóð til að Vínbúðin í Austurstræti yrði færð út á Granda og Reykjavíkurborg bara bannaði það og sagði að þeir yrðu að vera í miðborg Reykjavíkur og þeir tóku sönsum og gerðu það. En hér virðist bæjarstjórn ekkert hafa gert í því að halda þessu hér í miðbænum og það finnst mér alveg ótrúlega sauðslegt,“ sagði Ragnar og bætti við að hann hefði áhyggjur af því hvarf áfengisverslunar úr miðbænum myndi veikja miðbæinn enn frekar. Ásthildur hafnaði hins vegar því að miðbærinn væri á niðurleið og sagði að þar væri enn mikið líf og starfsemi. Þá benti hún á að fyrirhuguð framtíðaruppbygging í miðbænum myndi styrkja svæðið til framtíðar.
Hlusta má á viðtalið við Ásthildi í heild sinni hér og við Ragnar hér. Þá er einnig rætt við Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR.
Vínbúðin sem ÁTVR opnaði verslunarkjarnanum Norðurtorgi á þriðjudaginn.