Fara í efni
Fréttir

Bæjarráð styrkir ekki ADHD samtökin

Bæjarráð Akureyrar hafnaði á síðasti fundi erindi frá ADHD samtökunum, þar sem óskað var eftir samstarfi við Akureyrarbæ um aukna fræðslu og þjónustu í sveitarfélaginu, um ADHD og fyrir fólk með ADHD; athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir.

Samtökin óskuðu eftir einni milljón króna í styrk frá Akureyrarbæ. Í bréfi frá samtökunum sagði að samstarf „gætið verið í formi reglulegs námskeiðahalds fyrir starfsmenn bæjarins sem vinna með börnum með ADHD eða beins styrks við starfsemi ADHD samtakanna á Akureyri.“

Bæjarráð taldi sig ekki geta orðið við erindinu, að því er segir í fundargerð.

Í bréfinu til bæjarins segir Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að starfsemi þeirra hafi verið stórefld á flestum sviðum á undanförnum árum og mikilvægur þáttur í uppbyggingunni hafi verið aukin þjónusta utan höfuðborgarsvæðisins.

„Útibú ADHD samtakanna á Akureyri hefur til að mynda á liðnum árum, staðið fyrir reglulegum spjallfundum um ýmis málefni tengd ADHD, námskeið hafa verið haldin og í samstarfi við Grófina þar sem samtökin hafa haft athvarf, höfum við reynt að efla félagslegt net og samstarf fagfólks og einstaklinga með ADHD, öllum til heilla. Í þessu tilliti höldum við m.a. úti Facebook siðunni ADHD Norðurland og umræðuhópi henni tengdri, þar sem fólk með ADHD fær fréttir og fræðslu um það sem efst er á baugi hverju sinni,“ segir í bréfinu.

„ADHD samtökin vilja gjarnan halda áfram á sömu braut og auka enn starfsemi sína Akureyri. Auk reglulegra spjallfunda með sérfræðingum og almenns fræðslu- og ráðgjafastarfs teljum við mikilvægt að hægt verið að bjóða uppá aukna fræðslu í skólum, leikskólum og tómstundaheimilum í bænum og bætt aðgengi fyrir heimamenn að námskeiðum samtakanna – bæði í gegnum vefinn og einnig á staðnum.“

Hér má sjá bréf ADHD samtakanna til Akureyrarbæjar.