Fara í efni
Fréttir

Aukin starfsemi Kvennaathvarfsins

Sandra Valsdóttir er verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Akureyri. Mynd Rakel Hinriksdóttir

Nýverið var tilkynnt að Samtök um kvennaathvarf hefði hlotið tvo styrki frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Annars vegar til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Kvennathvarfsins á Akureyri og hinsvegar til þess að efla fræðslustarf á svæðinu og auka sýnileika athvarfsins. Þetta eru kærkomnar fréttir, en Kvennaathvarfið tilkynnti skerta þjónustu á heimasíðu sinni þann 17. apríl, en stjórn SUK (Samtaka um kvennaathvarf) sá ekki fært að bjóða áfram upp á úrræðið í þáverandi mynd og takmarkaði þjónustuna við aðeins eina konu í senn.

Skortur á starfsliði

Kvennaathvarfið á Akureyri var opnað árið 2020, sem tilraunaverkefni í samstarfi við Bjarmahlíð; miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, sveitarfélögin á Norðurlandi eystra, Aflið og ríkið. Framan af ári var staðan sú að aðeins einn starfsmaður var á vakt á dagvinnutíma í athvarfinu, en á símavakt frá kl. 16 til 20. Þar af leiðandi voru konurnar mikið einar í húsinu. Sandra Valsdóttir er verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Akureyri. „Staðan var ekki ákjósanleg og ekki í takt við starfsemina sem er fyrir sunnan, en þar er starfsfólk í húsinu allan sólarhringinn,“ segir Sandra. „Þangað til að við fengjum fjármagn til þess að auka við starfshópinn, þá voru þessar skorður settar, sem stjórnin tilkynnti í apríl.“

Konurnar mikið einar

Konurnar sem sækja skjól til athvarfsins gera það til þess að flýja heimilisofbeldi og þær búa í athvarfinu á meðan þörf er. „Margar konur taka með sér börn og það höfðu komið upp vandamál í húsinu þegar enginn starfsmaður var í húsi, enda búa skjólstæðingar náið,“ segir Sandra. Þrátt fyrir að ekki sé starfsmaður allan sólarhringinn í húsinu, eru konurnar þó með ákveðið öryggi. „Við erum með öryggiskerfi í húsinu, myndavélakerfi og svo er hver kona með öryggishnapp með staðsetningartengingu. Ef ýtt er á hnappinn kemur boð beint til lögreglu.“

Hér má sjá nýtingu síðan Kvennaathvarfið opnaði á Akureyri. Nákvæmar upplýsingar um dagafjölda árin 2020 og 2021 skortir.

Fjármagn tryggt í eitt ár

Svo heppilega vildi til að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið auglýsti styrki í haust sem ætlaðir voru til að auka á þjónustu við þolendur ofbeldis, þar sem sérstök áhersla var lögð á landsbyggðina. Við sóttum um það og fengum jákvæð svör núna í september. Einnig höfum við leitað stuðnings til Akureyrarbæjar og sveitarfélaganna í kring, en í athvarfið koma einnig konur úr nærliggjandi sveitarfélögum,“ segir Sandra. Styrkurinn gildir í ár, fram til september 2024. „Samtök um kvennaathvarf munu svo brúa bilið út næsta ár,” segir Sandra. „Stefnan er að fá inn nýtt starfsfólk um næstu mánaðamót, en við erum nú þegar búin að opna á að fleiri en ein kona fái að koma til okkar í einu.“ Sandra segir að aðsóknin hafi verið dræm í sumar, eftir að gefið var út að aðeins ein kona geti búið í athvarfinu í einu. „Það er því miður svolítið í eðli þessara kvenna, að vilja ekki taka pláss. Þær virðast síður þora að hafa samband til að kanna málið, það er allavega okkar upplifun þó við vitum það ekki fyrir víst.“

Þjónusta allan sólarhringinn

Við ætlum að bæta verulega við þjónustuna og viðveru starfskvenna í athvarfinu,“ segir Sandra. Við erum einnig í góðu samstarfi við aðra þjónustuaðila hér á svæðinu, s.s. Bjarmahlíð, Aflið og Barnavernd Akureyrar, sem t.d. hefur sinnt fyrir okkur bakvakt.

Til þess að ná sambandi við Kvennaathvarfið er best að hringja í símanúmerið 5611205. „Það er í raun síminn hjá Kvennaathvarfinu í Reykjavík, en það er bara vegna þess að þar er alltaf einhver við símann og getur beint viðkomandi áfram réttar brautir.“

Aukin vitundarvakning um Kvennaathvarfið og birtingarmyndir ofbeldis

„Núna í október erum við að skipuleggja fræðslu sem verður farið af stað með í nóvember,“ segir Sandra, en annar styrkurinn frá ríkinu er einmitt til þess að efla fræðslu um Kvennaathvarfið og ofbeldi. „Við ætlum að byrja á Akureyri, ætlum að reyna að komast í framhaldsskólana, heilsugæsluna, spítalann og samstarfsaðila okkar, eins og lögregluna til dæmis.“ Fræðslan mun aðallega ganga út á að fræða um starfsemi athvarfsins, birtingarmyndir ofbeldis og hvernig skal bregðast við ef grunur er um ofbeldi. „Fræðslustýra Samtaka um Kvennaathvarf mun koma að sunnan og fara í þessi verkefni með okkur,“ segir Sandra, en hún hefur tekið eftir því að fólk viti jafnvel ekki af starfsemi athvarfsins, eða hvers eðlis hún er.

Gefandi en erfitt starf

Sandra er sjúkraliði að mennt, en hefur víðtækan bakgrunn sem nýtist í starfi hennar hjá Kvennathvarfinu. „Ég byrjaði sem helgarstarfsmaður. Ég hef mikla reynslu af því að vinna með fólki í viðkvæmri stöðu. Á geðdeild, meðferðarheimili, mismunandi elliheimilum, með fötluðum börnum, fullorðnum í skammtímavistun, heimaþjónustu og sambýlum,“ segir Sandra en hún fékk ráðningu sem verkefnastjóri Kvennaathvarfsins á Akureyri síðastliðið vor. „Það er ofboðslega gefandi að vinna hérna, en vissulega mjög erfitt. Það gefur mér mikið að sjá konurnar okkar blómstra, þegar þær hafa kannski verið bældar svo árum skiptir,“ segir Sandra. „Bæði konurnar sjálfar og börnin taka miklum framförum við það eitt að upplifa öryggi, og ég sem þekki þau oftast ekkert áður en þau koma til okkar, sé oft gríðarlegan mun á stuttum tíma.“