Aukið öryggi með nýju gagnaveri á Akureyri
Advania lauk í haust uppsetningu á nýju gagnaveri á Akureyri í samstarfi við atNorth. Gagnaverið var hannað sérstaklega í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til gagnaöryggis með möguleika á speglun milli landshluta, að sögn Ólafs Helga Haraldssonar, deildarstjóra rekstrarlausna hjá Advania.
Til að lágmarka svartíma milli landshluta eru fjarskiptaleiðir yfir Sprengisand og Kjöl nýttar, að sögn Ólafs Helga. Auk þess notast Advania við eldri leiðir í gegnum NATO ljósleiðara og eru fjarskipti þannig tryggð milli landshluta. Ísland þykir vænlegur kostur fyrir staðsetningu gagnavera vegna orkunýtingar, öryggis og sjálfbærni en Akureyri er á landfræðilega hlutlausum stað og hentar því sérstaklega vel sem staðsetning fyrir nýtt gagnaver, segir Ólafur. Fjarskipti við umheiminn verði tryggð með nýjum tengistað á Akureyri í haust, eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum, en hingað til hefur það eingöngu verið mögulegt á Suðvesturlandi.
Miklar kröfur
„Miklar kröfur eru gerðar til áfallaþols gagna viðskiptavina okkar og með því að geta boðið þeim val um tvöfaldar þjónustur á milli landshluta eykst öryggi gagna mikið, aðgengi að þjónustum er betra og áhætta vegna náttúruhamfara er lágmörkuð. Þetta er mikilvægt til að tryggja að gögn séu örugg og aðgengileg hvenær sem er. Auk þess býður gagnaverið á Akureyri upp á mikla möguleika til stækkunar sem gerir okkur kleift að mæta vaxandi þörf viðskiptavina okkar fyrir gagnavörslu,“ segir Ólafur Helgi.
Hann bætir því við að Advania og Oracle Cloud hafi sömuleiðis sett upp ský í þjónustu Advania á Akureyri sem er speglað milli Suðvestur- og Norðurlands. „Við erum svo með beint samband í skýjaþjónustur Oracle, Amazon AWS og Microsoft Azure ásamt því að reka okkar eigið fjarskiptanet til New York, Amsterdam, London og Dublin svo eitthvað sé nefnt. Þetta styður við þá vegferð Advania að þjónusta hýsingu gagna og skýjaþjónustur á Íslandi með bestu mögulegu tækni á hverjum tíma. Auk þess er Advania eini þjónustuaðilinn á landinu sem getur tryggt ábyrgð á rekstri kerfa í upplýsingatækni alla leið frá útstöð í skýjaþjónustur án aðkomu þriðja aðila sem þýðir skilvirkari rekstur fyrir viðskiptavini og minna flækjustig.“
Mikilvægt fyrir heilbrigðisgeirann
Tvöföld tenging í gagnaver þykir sérstaklega mikilvæg fyrir tækniinnviði í heilbrigðisgeiranum.
„Að tryggja upplýsingaöryggi skjólstæðinga er forgangsatriði Heilbrigðisstofnunnar Norðurlands. Tilkoma nýs gagnavers á svæðinu er mikilvægur þáttur í að vernda gögn gegn ófyrirséðum atburðum eða bilunum en hámarkar einnig afköst og auðveldar aðgengi. Við erum nú með tengingu í gagnaver Advania í tveimur landshlutum og það auðveldar endurheimt gagna, styrkir regluverk og gefur færi á að stækka innviði án mikillar fyrirhafnar,“ segir Þórhallur Harðarson, framkvæmdastjóri fjármála og stoðsviða hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
„Sjálfbærni og hagkvæmni í rekstri spilar líka þarna inn í. Þetta framtak er til marks um hollustu okkar við að veita örugga, áreiðanlega og skilvirka heilbrigðisþjónustu,“ segir Þórhallur.