Fara í efni
Fréttir

Aukast verkefni félagsþjónustunnar?

Sigurður J. Sigurðsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Akureyrar, telur að taki einkafyrirtæki við rekstri hjúkrunarheimilanna Hlíðar og Lögmannshíðar, lendi ýmis verkefni með auknum þunga á félagsþjónustu sveitarfélagsins. Þá segir hann að slíkir aðilar muni ekki taka á sig áhvílandi skuldbindingar, þær verði aðrir að greiða.

Þetta kemur fram í grein sem Sigurður sendi Akureyri.net í gær í kjölfar greinar bæjarstjórnar Akureyrar sem birtist hér á dögunum, þar sem bæjarstjórn brást við grein Sigurðar um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila.

Sigurður segir: „Ég hef fullan skilning á því að ekki verði við það búið að ekki fáist raunhæfar lausnir á kostnaðarhlutdeild Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) í verkefninu, en skil ekki af hverju bæjarstjórn leggur ofur áherslu á að losna undan þessi verkefni og koma því í hendur annarra, hver sem sá aðili verður.“

Hann segir ljóst að þeir sem taka að sér þessa þjónustu, „sem heyrst hefur að SÍ séu í viðræðum við um yfirtöku, teljast ekki til opinberra aðila. Slíkir aðilar hafa önnur tækifæri til hagræðingar en sveitarfélög eða ríkisstofnanir og lúta lögmálum hins almenna vinnumarkaðar. Slíkir aðilar munu ekki taka á sig áhvílandi skuldbindingar, þær verða aðrir að greiða.

Ég tel jafnframt að ýmis verkefni muni koma með auknum þunga á félagsþjónustu bæjarins við slíka breytingu.“

Smellið hér til að lesa grein Sigurðar.