Fara í efni
Fréttir

Auglýsir eftir aðstöðu fyrir Matargjafirnar

Sigrún Steinarsdóttir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þegar hún fékk heiðursviðurkenningu hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní. Mynd: Forsetaembættið.

Sigrún Steinarsdóttir leitar nú að aðstöðu fyrir Matargjafir Akureyri og nágrenni til að þetta þarfa verkefni geti haldið áfram þó svo hún hafi hætt með verkefnið frá 1. maí. Hún er reyndar ekki alveg hætt því hún vill skilja við verkefnið þannig að einhver taki við því og að mögulegt sé að koma upp lágmarksaðstöðu svo þau sem taka við af henni þurfi ekki að sinna matargjöfunum frá heimili sínu.

Fram kom í viðtali við Sigrúnu sem Akureyri.net birti í tveimur hlutum í gær og fyrradag að hún telji óviðunandi að þessu viðamikla verkefni sé sinnt frá heimili, það hafi hún lært af reynslunni undanfarin tæp tíu ár. Áreitið sem hlýst af því að reka slíka starfsemi frá heimili, með matarkassa undir eldhúsglugganum, er einfaldlega of mikið. Sigrún nefnir til dæmis að fyrir jólin í fyrra hafi Matargjafir hjálpað 205 fjölskyldum á Norðurlandi.

Sigrún birti í gær pistil á Facebook-síðu Matargjafa þar sem hún biður fólk um að hafa samband við fyrirtæki með það fyrir augum að finna verkefninu aðstöðu þar sem hægt væri að hafa skrifborð og aðgang að neti, og pláss fyrir ísskáp, frystiskáp og matarkassa. Sigrún kveðst ekki tilbúin að nota það fé gefið er til Matargjafa til að hjálpa skjólstæðingum í að greiða fyrir slíka aðstöðu og leitar því eftir ókeypis aðstöðu sem hentar. 

„Nú langar mig að endurvekja Matargjafir með breyttu sniði,“ skrifar Sigrún og leitar því til einstaklinga og fyrirtækja með þá ósk að aðstoða hana við að aðstoða fólk sem ekkert á. „Ég vona af öllu mínu hjarta að þú/þið séuð tilbúin að aðstoða mig í þessu verkefni.“

Hér að neðan er skjáskot af pistli Sigrúnar á síðu Matargjafanna.