ATx tryggir sér 4 milljarða fjármögnun

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics, sem Akureyringurinn Hákon Hákonarson stofnaði fyrir nokkrum árum, tryggði sér á dögunum 4 milljarða króna fjármögnun frá breiðum hópi innlendra og erlendra fjárfesta. Vakin er athygli á þessu á vef Háskólans á Akureyri HA).
„Fjármagnið mun styðja áframhaldandi þróun lyfja félagsins, sérstaklega í baráttunni gegn heilabilun og húðbólgusjúkdómum. Þetta er stór áfangi fyrir ATx og styrkir stöðu þess á alþjóðlegum vettvangi,“ segir á vef HA.
Hákon Hákonarson hefur lengi starfað sem læknir í Bandaríkjunum. Hann stefnir að því að koma á fót umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri.
Mikilvægt samstarf
Á vef HA segir að frá stofnun hafi Arctic Therapeutics – sem þar er skammstafað ATx – verið í góðu samstarfi við háskólann „og er starfseining fyrirtækisins á Akureyri staðsett á háskólasvæðinu. Samstarfið felst meðal annars í því að ATx hefur aðgang að rannsóknaraðstöðu skólans og sú nálægð hefur leitt til fjölmargra rannsókna og verkefna. Stúdentar HA hafa átt þess kost að vinna með ATx í rannsóknarverkefnum og í kjölfarið fengið störf hjá fyrirtækinu. Þá hafa HA og ATx einnig sameinast um að kynna rannsóknir sínar á Vísindavöku, sem hefur gengið gríðarlega vel. Samstarfsyfirlýsing liggur fyrir milli HA og ATx til ársins 2026, sem undirstrikar mikilvægi samstarfsins og framtíðaráforma fyrirtækisins á Akureyri.“
Nálægðin nær ómetanleg
„Þetta samstarf hefur reynst okkur afar dýrmætt. Að hafa á svæðinu jafnöflugt fyrirtæki og ATx er orðið í dag er eitt og sér jákvætt. Sú staðreynd, að með nálægðinni hefur myndast færi á samvinnu við stúdenta í skólanum í rannsóknarverkefnum, er nær ómetanleg. Þá er einkar ánægjulegt að heyra að stúdentar frá HA hafi farið í störf hjá fyrirtækinu og sýnir það mikilvægi okkar námsleiðar í líftækni sem er einstök á landinu,” segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor skólans Háskólans á Akureyri á vef skólans.