Fara í efni
Fréttir

Áttu skemmtilegar sögur eða minningar úr VMA?

Á fjörutíu árum hafa þúsundir útskrifast úr VMA. Mynd: Heimasíða VMA

Verkmenntaskólinn á Akureyri, VMA, verður fertugur á þessu ári. Skólinn var stofnaður árið 1984 og með því var framboð námsleiða á Norðurlandi eystra stóraukið. Afmælisárið verður haldið hátíðlegt, en á heimasíðu skólans er óskað eftir fulltrúum úr stórum hópi útskrifaðra nemenda, til þess að funda um væntanlega afmælishátíð sem verður haldin á afmælisdeginum 29. ágúst næstkomandi. 

Í fréttinni segir að það sé löngu tímabært að kalla saman útskrifaða nemendur, sem nú skipta þúsundum, til þess að halda veglegt hóf og fagna skólanum sínum. Lumar þú á minningum eða sögum úr VMA?

Þeir fyrrum nemendur skólans sem hafa áhuga á að koma að hugmyndavinnu og skipulagi þessa viðburðar, eru beðin um að hafa samband með því að senda tölvupóst á vmahatid@vma.is

Búið er að skipa 40 ára afmælisnefnd VMA, en nefndin stefnir að því að boða til fjarfundar í lok þessa mánaðar til að ræða hugmyndir um VMA-hátíð í ár og til framtíðar. Í afmælisnefndinni eru:

  • Sigríður Huld, skólameistari
  • Óskar Þór, fréttamaður heimasíðu VMA og stuðningsfulltrúi
  • Valgerður Dögg, kennari í VMA
  • Steinar Bragi, formaður nemendafélagsins Þórdunu