Fara í efni
Fréttir

Ásgeir lést í nótt en Lífskviða fer fram

Ásgeir H Ingólfsson, ljóðskáld og blaðamaður, lést í nótt á Akureyri. Hann var aðeins 48 ára. Ásgeir, sem búsettur var í Prag, greindist með krabbamein fyrir nokkrum vikum og hefur frá áramótum dvalið í gamla heimabænum, á heimili móður sinnar, Hrefnu Hjálmarsdóttur.

Akureyri.net birti viðtal við Ásgeir síðastliðinn miðvikudag vegna viðburðar sem skipulagður hafði verið í dag, laugardag, og rétt að koma frá því á framfæri að viðburðurinn – Lífskviða – fer fram.

Lífskviða verður við Götu sólarinnar í Kjarnaskógi. Opið hús verður frá 14-17 og svo hefst aðalgiggið kl. 19, eins og Ásgeir sagði í viðtalinu. „Það sem verður á dagskrá verða ljóð, tónlist, list, ræður og hvað sem okkur dettur í hug. Það er nóg að flottum listamönnum að mæta, frægum og óuppgötvuðum í bland,“ sagði hann.

Mörg voru búin að boða komu sína í Lífskviðuna. „Í rauninni er viðburðurinn opinn öllum,“ sagði Ásgeir. „Öll eru velkomin, þó ég þekki þau ekki neitt. Auðvitað er ekkert mikið pláss, það komast fjörutíu í sæti, en það er líka hægt að kíkja bara við. Ég er búinn að fá mikla hjálp frá fólkinu mínu til þess að skipuleggja og það er draumurinn að hérna blandist saman hugverk og list og úr því verði eitthvað líf.“

Ásgeir sagði: „Ég hef búið svo víða, að vinahópurinn minn er stór og dreifður sem þekkist ekkert mikið innbyrðis. Mér finnst fallegt að þau tengist.“

Viðtalið Akureyri.net við Ásgeir: 

Fögnuður ljóðs og lífs þrátt fyrir krabbamein