Fara í efni
Fréttir

Aron Einar til liðs við Al-Gharafa í Katar

Aron Einar fagnar eftir að hann skoraði úr víti í sigri Þórs á Dalvík í Lengjudeildinni í sumar. Það var fyrsta mark hans fyrir meistaraflokk Þórs. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson, fyrrum landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er genginn til liðs við félagið Al-Gharafa í Katar. Aron er er kominn með leikheimild  ytra og mun spila þar í vetur. Þetta kemur fram á fótbolta.net í dag.
 
Al-Gharafa leikur í Meistaradeild í Asíu og þar má tefla fram fleiri erlendum leikmönnum en í deildarkeppninni í Katar. „Þetta var spennandi möguleiki fyrir mig til að koma mér inn í hlutina aftur, spila áfram úti. Ef að vel gengur þá gæti verið möguleiki á því að ég verði skráður í deildarhópinn líka hjá félaginu. Þetta opnar fleiri dyr fyrir mig að vera hérna úti,“ segir Aron við Fótbolta.net.
 
Aron lék síðustu ár með Al-Arabi í Katar en samdi við Þór í ágúst og tók þátt í sex leikjum með uppeldisfélagi sínu í Lengjudeildinni. Hann samdi við Þór út leiktíðina 2025 en dró enga dul á að stefnan væri að leika erlendis á ný í vetur því hann dreymir um að leika með landsliði Íslands á ný.
 
Þegar Aron kom til Þórs var talað um að hann yrði líklega lánaður til erlends liðs í vetur en ekki var möguleiki á því fyrirkomulagi í þessu tilfelli. Samningnum var því rift fyrir síðasta leik Þórs í deildinni, við Gróttu, áður en félagaskiptaglugganum var lokað í Katar „til öryggis ef þetta skyldi koma upp, sem það svo gerði. Þetta var alltaf planið og Þórsararnir vissu það líka. Ég er bara ánægður að þetta sé komið í gegn og ég fæ að spila allavega sjö leiki í Meistaradeildinni. Það verða svo fleiri leikir ef við komumst áfram í því,“ segir hann við fótbolta.net í dag.
 
Fyrsti leikur Arons með Al-Gharafa gæti orðið 1. október þegar liðið tekur á móti Al Ain í 2. umferð Meistaradeildar Asíu. Alls spilar liðið átta leiki í riðlakeppninni og átta af 12 liðum í riðlinum komast í 16-liða úrslit. Riðlakeppninni lýkur 19. febrúar. Eftir það ræðst framhaldið. Stefnan er enn að Aron Einar leiki með Þór næsta en ekki kemur í ljós fyrr en seinna í vetur hvenær hann kemur heim.
 

Smellið hér til að lesa viðtal við Aron Einar á fotbolti.net