Aron Can spilar í Hlíðarfjalli um páskana

„Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum svona stóran listamann til þess að spila í fjallinu,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli. Þar verður mikið um að vera í páskafríinu, en hápunkti verður náð þegar Aron Can treður upp á laugardaginn. Auk þess eru plötusnúðar væntanlegir, páskaeggjamót SKA og fleira skemmtilegt. Opnunartíminn verður frá 9-17 frá fimmtudegi til sunnudags og svo frá 10-16 á mánudeginum, sem er annar í páskum. „Við erum afþreyingarfjall, og þó að við vitum að það sé von á nóg af gestum, þá viljum við bæta upplifunina með uppákomum, tónlist og stemningu,“ bætir Brynjar Helgi við.
Stefnir í blíðu og góðar brekkur
„Það verður sól og blíða um helgina og spáð næturfrosti þannig að brekkurnar haldast góðar. Páskarnir líta því bara mjög vel út. Okkur var hætt að lítast á blikuna í síðustu viku í öllum þessum hita,“ segir Brynjar Helgi. „Það var þannig séð alveg nægur snjór eftir þrátt fyrir hlýindin, en gott fyrir okkur að fá kuldann aftur. Nú er búið að bæta vel í eftir snjókomu síðustu daga og stefnir í að það haldi áfram að bætast við snjór á morgun.“
Svo lengi sem það er einhver snjór, þá kemur fólk í páskafríinu
„Við eigum von á góðri traffík, eins og alltaf um páskana,“ segir Brynjar Helgi, en hann segir að fólk sé bæði að bóka heimsókn í fjallið á heimasíðunni og mæta á staðinn, það sé svona til helminga. „Svo lengi sem það er einhver snjór, þá kemur fólk í páskafríinu. Við búumst við svona 2.500 manns daglega á góðum páskadögum.“
Eftir páska mætir Andrés í bæinn með eitt fjölmennasta íþróttamót ársins. Andrésarleikarnir 2025 fara fram 23.-27. apríl í Hlíðarfjalli. Myndir: Hlidarfjall.is
Eftir sumardaginn fyrsta er komið vor í bæinn
„Við klárum svo Andrésarleikana í vikunni eftir páska, og svo er yfirleitt bara kominn vorhugur í fólk,“ segir Brynjar Helgi, en hann hefur engar áhyggjur af mótinu og segir það hafa verið haldið við verri aðstæður en eru núna. „Við höfum stundum prófað að hafa opið í fjallinu eftir mótið, en eftir Sumardaginn fyrsta virðist fólk vera búið að leggja skíðunum og mætingin er dræm. Það er samt oftast opið áfram fyrir þau sem eru að æfa.“
Hér má sjá páskadagskrána, eins og hún birtist á Facebook síðu Hlíðarfjalls: